150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum um hlutafélagið sem á að stofna um þessar samgönguframkvæmdir, borgarlínu og það allt saman. Ég ætla að fara aðeins í gegnum frumvarpið og nefndarálitin og leggja smávangaveltur í púkkið. Mig langar þó að taka það fyrst fram að sá er hér stendur er alls ekki á móti almenningssamgöngum. Þvert á móti tel ég að það sé mjög mikilvægt að við séum með góðar og skilvirkar almenningssamgöngur. En við verðum líka að kenna fólki að nota þær. Það kom reyndar fram í andsvörum í gær við hv. þingmann sem nú situr á forsetastóli, við vorum að ræða hvort það ætti að vera frítt í strætó eða ekki, að hann talaði um að það þyrfti kannski að vera meira spennandi að fara í strætó, hann orðaði það þannig, það þyrfti að vera meira kúl og töff. Ég er alveg sammála hv. þingmanni með það. Það ættum við vissulega að reyna að gera líka, breyta aðeins hugsunarhættinum ef fólk álítur það vera eitthvað óspennandi eða hallærislegt að nota strætó. Mögulega getur það farið saman að kenna fólki að nota strætó með því að hafa það ókeypis eða gera það skemmtilegt og áhugavert. Við förum kannski ekki dýpra í það núna en mér fannst þetta áhugaverð nálgun hjá hv. þingmanni sem mér hafði ekki sjálfum dottið í hug. En ég held að það sé þó nokkuð til í þessu, að það sé ekki nógu töff að fara í strætó.

Mig langar að geta þess, og kannski hefur það verið skoðað einhvern tímann, að mér finnst áhugavert að velta því upp, af því að við viljum reyna að sameina notkun einkabílsins og hafa almennilegar almenningssamgöngur, að hvetja fólk til að fara í umhverfisvænni ferðamáta. Ef þeim sem nota einkabílinn fjölgar hraðar en þeim sem nota almenningssamgöngur, eins og virðist vera undanfarin ár, er spurning hvort við getum aukið hlutdeild vistvænna ökutækja enn hraðar, rafmagnsbíla eða tvinnbíla. Ég vil leyfa mér að segja að það sé betra að horfa á rafmagnsbílinn. Það væri spennandi að vita hve margir hlaða tvinnbíla sína sem bæði keyra á rafmagni og bensíni en þurfa að fara í hleðslu fyrir þessa 30 til 40 km sem þeir duga. Ég er ekki viss um að það séu allir, klárlega ekki allir. Það væri áhugavert að vita hve stór hluti er í raun að nota rafmagnið. Auðvitað breytist þetta væntanlega eftir því sem maður getur keyrt lengra á hleðslunni áður en skipt er yfir á jarðefnaeldsneytið. Pælingin sem ég hef verið að velta fyrir mér er hvort hægt væri að heimila rafmagnsbílum eða vistvænum ökutækjum að nota forgangsakreinarnar. Þar með væru þeir komnir í forgang í umferðinni og e.t.v. myndu þá fleiri nýta sér slíkar bifreiðar. Þá erum við að stíga skref til að vinna á loftslagsvandanum sem er sannarlega til staðar, þannig að það sé líka sagt hér, en hvernig við vinnum á honum er eitthvað sem við þurfum að skoða.

Hann kemur líka aðeins spánskt fyrir sjónir í þessu öllu saman sá hugsunarháttur að þrengja svo að einkabílnum að fólk sé í raun þvingað til að fara yfir í almenningssamgöngur. Það finnst mér sérstaklega undarlegt þegar svona margir talsmenn þess eru þeir sömu og segja að Ísland eigi að vera opið samfélag, sem það á vitanlega að vera, og allir velkomnir, við eigum ekki að neita neinum um að vera hérna. Við ætlum samt að ráðskast með það hvernig fólk ferðast, kemst á milli A og B, hafa vit fyrir fólki með það. Það er svolítið sérstök aðferðafræði, finnst mér, svolítið sósíalísk, að segja að nú eigi allir að nota strætó eða almenningssamgöngur og burtu með einkabílinn. Það sem er eiginlega kostulegast við þetta samt er hvernig Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn einhvers konar driffjöður í þessu öllu, að ýta fólki af einkabílum yfir í almenningssamgöngurnar og hafa vit fyrir fólki. Það er allsérstakt. Ég veit ekkert hvar Framsóknarflokkurinn stendur í þessu lengur, það virðist ekki skipta neinu og eyði ég ekki fleiri orðum í það.

Frumvarpið um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu er níu greinar. Það verður að segjast eins og er að ýmsa þætti þarf líklega að skýra aðeins betur. Markmiðin sem er fjallað um í 2. gr. eru talin upp í fjórum liðum og í a-lið stendur, með leyfi forseta:

„Að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta.“

Þetta er góð og mikilvæg setning, fyrsta setning, fyrsti liðurinn sem talinn er upp um tilgang eða meginmarkmið félagsins. En einhvern veginn óttast maður að allir samgöngumátar séu ekki það sem aðalhvatamenn þessara framkvæmda séu að velta fyrir sér. Það þarf því sérstaklega að horfa á það að allir samgöngumátar séu tryggðir og séu undir í þessu öllu saman.

Í b-lið er talað um að loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag verði náð. Kannski veit forseti það, og getur komið í ræðu og upplýst það, hvort við séum bara að hugsa um Reykjavíkurborg, að hún verði kolefnislaust, sjálfbært samfélag. Ég hefði haldið að við ættum að horfa á landið í heild. Þetta er svolítið sérstök setning. En auðvitað viljum við ná markmiðum eða í það minnsta minnka útblástur og gera það sem við getum í því. Ég kom aðeins inn á það í ræðu í gær að vísindamenn okkar vinna á hverjum degi, jafnvel í kapphlaupi við erlenda aðila, að því að finna lausnir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég minntist á verkefni sem Jón Hjaltalín Magnússon er að vinna að ásamt fleirum og var í fréttum, hann er að þróa nýja gerð rafskauta fyrir álver. Ef ég man rétt eiga þessi nýju rafskaut að geta dregið úr útblæstri frá álverum landsins um þriðjung. Það er ekkert smáafrek ef það tekst. Það er rosalegt stökk ef það tekst. Ég kann ekki að segja meira frá því en einhvers staðar í þessu öllu saman verður líka til súrefni, sem skiptir miklu máli að sjálfsögðu. Þetta er akkúrat verkefni sem við eigum að setja fjármuni í, ekki bara þetta verkefni en verkefni sem þetta, hvetja fyrirtæki og einstaklinga og okkar frábæru vísindamenn til að vinna að slíkum verkefnum. Ekki endilega að horfa bara á það að ætla að troða öllum í strætó með góðu eða illu. Í næstu liðum stendur að stuðla eigi að auknu umferðaröryggi, sem er mjög gott, og tryggja skilvirkt samstarf milli ríkis og sveitarfélaga.

Það er mikilvægt að við reynum að nýta þá tækni sem við höfum í dag, eins og fram hefur komið í nokkrum ræðum í öðru þingmáli, varðandi ljósastýringu. Ég hef ekkert vit á því hvernig það virkar en miðað við hvað menn hafa sagt skyldi maður ætla að hægt væri að ná meiri árangri þar.

Síðan kemur að 3. gr. um hlutverk félagsins. Ég ætla ekki að fara yfir alla liði þar en þar stendur í d-lið, með leyfi forseta:

„Að fylgja því eftir að sveitarfélögin vinni að nauðsynlegum breytingum á skipulagsáætlunum.“

Þetta er vitanlega gríðarlega mikilvægt. Ef heildarmarkmið félagsins er að stuðla að greiðum, skilvirkum, hagkvæmum og öruggum samgöngum á höfuðborgarsvæðinu með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta er mjög mikilvægt að það komi fram að sveitarfélögunum sé skylt að standa við sitt. Og ég spyr: Hvað ef þau gera það ekki? Er einhver sem getur sagt mér það? Hvað ef sú staða kemur upp að sveitarfélögin standa ekki við það sem þau eiga að standa við í skipulagsáætlunum sínum og -breytingum?

Síðan kemur reyndar fram í e-lið 3. gr. að félagið eigi að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu, verði ákveðið í lögum að leggja slík gjöld á, og byggja upp innviði slíkrar innheimtu. Þarna er ákveðinn fyrirvari, verði slík gjöld lögð á. En á sama tíma er gert ráð fyrir að 60 milljarðar, sem ríkið á að standa skil á inn í þessar framkvæmdir, verði fjármagnaðir með veggjöldum, notkunargjöldum. Reyndar er tekið fram að ef það tekst ekki þá eigi ríkið að sjá til þess að peningarnir komi með öðrum hætti. En það virðist vera að fyrsta val sé að innheimta þessi gjöld. Ég velti því fyrir mér hvort miðað sé við að þau gjöld borgi upp verkefnin sem þarna á að ráðast í. Þá velti ég líka fyrir mér hversu langur líftími þessa félags verði. Mér sýnist gert ráð fyrir 15–20 árum í það minnsta, maður getur lesið það út úr þessu, en hann gæti væntanlega orðið töluvert lengri. Síðan er talað um hlutverk Vegagerðarinnar.

Í 4. gr. er talað um hlutafé félagsins og þar segir að sá ráðherra er fer með eignir ríkisins skuli fara með hlut ríkisins í félaginu. Það er fjármálaráðherra, að sjálfsögðu, samkvæmt þessu. En það kemur líka fram að þó að hlutaskiptingin sé samkvæmt 4. gr. 75%:25% er eigendum þó heimilt að koma sér saman um aðra skiptingu á eignarhlutum í félaginu. Það er kannski eðlilegt að þetta sé með þessum hætti en ég hugsa að ákjósanlegt væri fyrir ríkið að sveitarfélögin tækju á sig meiri ábyrgð í verkefninu.

Í nefndaráliti meiri hlutans ásamt breytingartillögu við mál þetta, um að stofna hlutafélagið, segir á bls. 2 og 3, með leyfi forseta:

„Rekstur samgöngumannvirkja fellur til Vegagerðarinnar og eftir atvikum sveitarfélaga, eftir tegund og eðli samgöngumannvirkja og í samræmi við ákvæði vegalaga, nr. 80/2007.“

Í nefndaráliti meiri hlutans við samgönguáætlun, sem við höfum aðeins rætt, kemur hins vegar fram, á bls. 17, að það sé bara alls ekkert ljóst hvernig þessi skipting eigi að vera ef við erum að tala um sömu vegalög. Hér er talað um reksturinn og þar er talað um kostnaðarskiptinguna. Ég velti fyrir mér hvort þarna sé einhver árekstur. Það kann að vera að svo sé ekki en í það minnsta virðast vegalögin ekki alveg skýr þegar kemur að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þéttbýli og kostnaðarskiptingu framkvæmda sem falla undir höfuðborgarsáttmálann, sem hlutafélagið byggir að sjálfsögðu á eða það verður til vegna hans. Ég held að það þurfi að skoða þetta vel, hvort ég er að misskilja eða hvort það er eitthvað sem þarf að skýra betur.

Í 6. gr. frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Ríki og sveitarfélög skv. 1. gr. gera samning við félagið, einn eða fleiri eftir þörfum, þar sem nánar verður kveðið á um hlutverk félagsins vegna uppbyggingar samgöngumannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.“ — Við erum sem sagt að stofna félag og ekki er ljóst hvert hlutverk þess verður endanlega. — „Í samningi milli aðila skal m.a. kveðið á um fjármagnsskipan félagsins, nánari útfærslu einstakra framkvæmda, eignfærslu mannvirkja sem og ráðstöfun þeirra við slit félagsins.“

Ég held að það sé býsna mikilvægt að hafa einhverjar frekari hugmyndir um þessa liði, hvernig farið er með þá. Í það minnsta er töluverð óvissa um félagið og hver útfærslan á þessum mikilvægu þáttum verður.

Í 7. gr. er fjallað um yfirtöku og þróun lands í eigu ríkisins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Félagið skal með sérstökum samningi við ráðherra taka við landi í eigu ríkisins ásamt þeim réttindum og skyldum sem því tengjast og telst það hluti af hlutafjárframlagi ríkisins. Í samningnum skal m.a. ákvarða afmörkun lands og skilyrði afhendingar þess til félagsins.“

Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt hvernig þetta land verður skipulagt eða alla vega verði tekið tillit til þess hvað ríkið kynni að hafa um þetta að segja.

Síðan heldur áfram í 7. gr., með leyfi forseta:

„Allur ábati af þróun og sölu landsins skal renna óskertur til verkefnisins um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu.“

Þarna segir að ábatinn af sölu landsins sem ríkið ætlar að setja inn í þetta skuli renna til félagsins. Það er hins vegar ekkert sagt um ábata af sölu lóða sem sveitarfélögin kunni að fá út úr þessari framkvæmd, segjum að á einhverjum svæðum verði undirgöng eða stokkar eða hvernig sem það er og til verði lóðir. Það kann vel að vera að einhverjir hafi blendnar tilfinningar um það, sumir halda því fram að lóðir muni verða lítils virði við þessa miklu línu. Aðrir telja að þær verði mikils virði. Ég velti fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að arður eða ábati sem verður af lóðasölu renni einnig inn í félagið meðan það er í gangi. Það virðist vera eins og ríkið eigi bara að gera það. Ég held að sveitarfélögin þurfi að leggja sitt af mörkum þarna líka.

Síðan er talað um heimild til lántöku í 8. gr. og þar kemur fram að félaginu sé heimilt að taka lán. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Lántaka er háð því skilyrði að ríkissjóður veiti félaginu lán eða veiti ríkisábyrgð verði lán tekið frá öðrum aðila.“

Það er mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt hver ábyrgð ríkisins er á því hvernig staðið verður að skilum á þessu. Það er undarlegt að skilja það eftir.

Í 9. gr. er talað um slit á félaginu, fullnaðaruppgjör og slíkt og síðan segir, með leyfi forseta, „og öllum eignum félagsins ráðstafað“. Er það ákvörðun félagsins hvernig þeim er ráðstafað? Er það samkvæmt samningi? Er eðlilegt að þetta standi svona opið, að það sé bara seinni tíma vandamál hvernig eigi að fara með þær miklu eignir sem kunna að verða í þessu félagi? Ég sakna þess svolítið að þetta sé ekki ljósara, herra forseti.

Í nefndaráliti meiri hlutans, sem ég hef ekki tíma til að fara yfir hér á eftir, er farið ítarlega yfir einstök atriði þessa máls sem og í nefndaráliti minni hlutans. Ég mun fara yfir það síðar.

Ég ítreka að ég hef ekkert á móti almenningssamgöngum. Ég er hins vegar mjög á bremsunni gagnvart því að þetta mál fari í gegnum þingið án þess að upplýst sé um þær ábyrgðir sem ríkissjóður á að vera með, hver endanleg fjármögnun ríkissjóðs verður í þessu verkefni. Hvað kemur það til með að kosta ríkissjóð, skattborgara landsins? Þeir fjármunir, þeir tugir eða hundruð milljarða, við vitum ekki endilega tölu, sem munu fara í þetta verkefni, en ég fullyrði það, herra forseti, og ætla að vona að það verði skýrt hér í þingræðum, að þetta verkefni mun fara fram úr áætlun. Það mun fara fram úr áætlun. Ég held að það sé mjög mikilvægt að það liggi fyrir hvernig farið verði með þann umframkostnað. Mér finnst útilokað að leggja hann á ríkissjóð.