150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:35]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Herra forseti. Í þessari ræðu minni reyni ég að ramma inn hvernig ég ætla að nálgast umræðuna um það mikilvæga og risastóra mál sem liggur fyrir Alþingi að taka afstöðu til, þ.e. stofnun opinbers hlutafélags til að framfylgja markmiðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og með þeirri aðgerð færa það vald sem felst í þeim samningi og þeim verkefnum sem römmuð eru inn í honum yfir til þess félags og slíta þar með að nokkru leyti tengingu Alþingis við þau verkefni til næstu 15 ára. Það er auðvitað risastór aðgerð og óhefðbundin í alla staði.

Ég hélt mína fyrstu ræðu í málinu í gær, sem var svolítil yfirferð, en nú, þegar kemur að því að fara af meiri nákvæmni ofan í þau atriði sem undir liggja, ætla ég að byrja á að fara í gegnum forsöguna því að hún skiptir máli í þessu samhengi öllu. Síðan ætla ég að kryfja atriði sem eru í samgöngusáttmálanum sjálfum en hann var undirritaður 26. september 2019. Næst ætla ég að fara í gegnum frumvarpið, í framhaldinu af því nefndarálit meiri hluta og síðan nefndarálit minni hluta. Svo er nauðsynlegt, til að átta sig á heildarmyndinni sem málið allt er hluti af, að skoða samning um samgöngustopp sem var gerður árið 2011 og er í raun rótin að þeirri samgöngukreppu sem ríkir — svo að notað sé orð hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, af því að hann situr í forsetastóli, sem átti mismæli gærdagsins þegar hann talaði um að hér væri samgöngukreppa eða umferðarkreppa. En sá samningur sem var gerður árið 2011 er einmitt grunnurinn að þeirri samgöngukreppu sem höfuðborgarsvæðið hefur verið í í hartnær áratug. Hún versnar og versnar og það virðist vera markmið að hafa stöðuna eins vonda og nokkur kostur er til að þrýsta á um það lausnargjald sem borgarlínan virðist á endanum vera til að hægt sé að komast áfram með stofnbrautaframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Það er því nauðsynlegt að þessi samningur verði skoðaður í samhengi við þetta.

Að þeim atriðum ræddum er næst á dagskrá að svara fyrir þau sjónarmið sem komið hafa fram. Við þingmenn Miðflokksins höfum verið spurðir mjög margra spurninga og ábendingum hefur verið komið til okkar í tengslum við umræðu um samgönguáætlun sem kláraðist í gær. Sú umræða er auðvitað nátengd þessu máli þó að félagi minn í umhverfis- og samgöngunefnd, hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé, leggi mikið upp úr því að hvert mál fyrir sig sé rætt mjög þröngt og afmarkað og reynt að horfa fram hjá öllum tengingum þar á milli. Það er bara það sem í daglegu tali kallast salamí-aðferðin, til þess gert að ná einu atriði inn í einu og gera það bærilegra við að eiga, með því að slíta á raunverulegu tenginguna við það sem síðan gerist annars staðar á grundvelli þeirrar breytingar.

Mýmargar spurningar liggja fyrir en ég ætla að gera sérstaka tilraun til að svara mikilvægum spurningum sem hv. þm. Jón Gunnarsson, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði fyrir mig í andsvörum við fyrstu ræðu mína í gær. Þær spurningar eru nefnilega þeirrar gerðar að þær skipta miklu máli og ég mun leitast við að svara þeim með ítarlegri hætti en mögulegt var á þeim stutta tíma sem andsvör bjóða upp á. Það var slíkur fjöldi spurninga sem kom fram hjá hv. þingmanni að mér finnst ekki nema sanngjarnt og eðlilegt að svara þeim með tilhlýðilegum hætti og af þeirri dýpt og nákvæmni sem þær kalla á. Það eru atriði sem hafa komið fram þessu til viðbótar í umræðum um samgönguáætlun sem nauðsynlegt er að kafa til botns í.

Þetta er ramminn um það hvernig ég ætla að nálgast þetta mál og umræðuna um það. Ég óskaði eftir því í ræðu minni í gær að málið gengi til hv. fjárlaganefndar á milli 2. og 3. umr. Það eru sjónarmið sem nauðsynlegt er að taka viðbótarumræðu um, m.a. atriði sem snúa að því hvort þetta form ohf., opinbert hlutafélag, sé skynsamlegt í þessu samhengi, hvort félagið ætti ekki bara að vinna undir regluverki ehf. eða hf. eftir atvikum, þ.e. eftir lögum um hlutafélög. Síðan hafa komið fram sjónarmið sem nauðsynlegt er að leiða í jörð, þ.e. hvort sú nálgun að færa þessar opinberu framkvæmdir inn í fyrirtæki með þessum hætti, opinbert hlutafélag, standist önnur lög, m.a. lög um skipan opinberra framkvæmda og mögulega fleiri. Þetta eru atriði sem voru ekki rædd, að því er ég best veit, í nefndarvinnunni og það er algjörlega ótækt að málið sé klárað hér á þessum vettvangi, ef það kemst á þann stað að það verði klárað, án þess að þetta atriði sé leitt í jörð. Þetta er í sjálfu sér ekki pólitískt atriði í þessu samhengi heldur snýr að því að við hér á Alþingi sýnum einhvern vilja til þess að tryggja að regluverkið um samgöngusáttmálann standist lög. Verði niðurstaðan sú að verið sé að ganga gegn öðrum lögum með þessari nálgun þarf að finna aðra leið en það hefur í sjálfu sér ekki áhrif á markmið málsins hvað þá varðar sem eru miklir áhugamenn um borgarlínu.

Ég lít ekki á þetta sem mögulegan áfangasigur í því að draga úr þeim hluta málsins sem snýr að borgarlínu heldur vil ég bara leggja áherslu á að málið sé unnið og þannig gengið frá því að það standist lög og reglur. Slíkar efasemdir hafa komið fram og samkvæmt mínum upplýsingum var þetta ekki skoðað sérstaklega í nefndinni og þess vegna er nauðsynlegt að þetta verði rætt þegar málið fer til nefndar á milli 2. og 3. umr. Það verður hv. þm. Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, sem stýrir því hvort mögulega verði haldinn fundur í nefndinni áður en 2. umr. klárast, sem ég held að væri að mörgu leyti skynsamlegt til að leiða þetta tiltekna atriði í jörð. Ef niðurstaðan verður sú að við séum á þunnum ís hvað önnur lög varðar og samspil þeirra getur tekið einhvern tíma að finna lausn á því.

Ég vil ítreka að þetta er algjörlega nauðsynlegt og burt séð frá öllum öðrum athugasemdum sem við urðum að gera þarf að skoða þetta. Þá er á sama tíma mögulegt að ræða áfram þau atriði sem við fulltrúar Miðflokksins höfum nefnt til skaðaminnkunar, ef svo má segja, gagnvart mögulegri framúrkeyrslu í borgarlínuverkefnunum öllum, samskiptum ríkissjóðs og sveitarfélaganna og þess með hvaða hætti skipulagsmálum verður komið fyrir þannig að hald verði í. Málið allt og verkefni samgöngusáttmálans verði ekki sett inn í þetta félag til næstu 15 ára og stjórn og stýrihópur finni sig í þeirri stöðu að vera fullkomlega varnarlaus gagnvart skipulagsvaldi tiltekinna sveitarfélaga sem þó eru hluti af sáttmálanum.