150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:26]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Ég var ekki kominn mjög langt í yfirferð minni yfir þetta frumvarp en í millitíðinni var ég minntur á að það þyrfti að gefa þessu félagi nafn og ég hef meira að segja fengið sendar hugmyndir að nafni. Einn vildi nefna það samgönguráðstjórnarríkið en ívið þjálla og styttra er þó samgöngusovétið eða samgöngusovét höfuðborgarsvæðisins. Ég mun því styðjast við þá nafngift á þetta nýja ríki þar til önnur finnst og tala um samgöngusovétið eða SSH fyrir samgöngusovét höfuðborgarsvæðisins. Þessi nafngift er mjög lýsandi fyrir eðli og tilgang þessa félags eða ríkis og markmið þess því að hér er í rauninni verið að innleiða sósíalíska stefnu að hætti sumra austantjaldslanda hér á árum áður, sósíalískt skipulag. Áður fyrr var það markmið stjórnvalda, a.m.k. margra flokka um land allt og ekki hvað síst í Reykjavík, að veita fólki meira frelsi og betri lífskjör, gera fólki kleift að eignast t.d. eigin bíl fyrir fjölskyldu sína og njóta þess frelsis sem í því felst, gera fólki kleift að eignast húsnæði sem væri nógu stórt fyrir fjölskylduna.

Nú er markmiðið að því er virðist að snúa þeirri þróun við og innleiða skortstefnu af hálfu ríkisins og sveitarfélaganna því nú er verið að skipuleggja bæði hina svokölluðu borgarlínu og byggðina sem á að tengjast henni með þeim hætti að þar byggist fyrst og fremst upp litlar íbúðir án bílastæða. Fólk sem býr þar neyðist til að nýta ríkissamgöngurnar og ef það dugar ekki til, ef menn verða sér úti um bílastæði einhvers staðar í grennd þá verður þrengt að umferðinni og það stendur reyndar til hvort eð er, með því að taka eina akrein í hvora átt af helstu samgönguæðum borgarinnar, eins og gerð er ágæt grein fyrir í skýrslu erlends ráðgjafarfyrirtækis sem benti á að í raun þyrfti að knýja fram aukna notkun almenningssamgangna. Hér er blygðunarlaust verið að boða neyslustýringu. Allt gengur þetta þvert á þau markmið sem a.m.k. Sjálfstæðisflokkurinn hafði við stjórn borgarinnar áratugum saman og það er kaldhæðni örlaganna að það skuli vera Sjálfstæðisflokkurinn hér á Alþingi sem snýr þessari stefnu við í Reykjavíkurborg að því er virðist til framtíðar og fjármagnar með því kosningaloforð Samfylkingarinnar hér í borg.

Formaður þess flokks, hv. þm. Logi Einarsson, flutti athyglisverða ræðu áðan og útskýrði að þeir sem áfram teldu sig þurfa að nota einkabíl, eins og hann orðaði það, eða fjölskyldubíl, gætu þá keypt sér greiðari leið með því að borga það sem nú er farið að kalla flýtigjöld en hét upphaflega tafagjöld. Hér sjáum við enn eitt dæmið um raunverulegar afleiðingar sósíalískrar stefnu. Hún bitnar á endanum á þeim sem hafa minna á milli handanna, hún færir flesta ef ekki alla neðar, en hún bitnar ekki hvað síst á þeim sem hafa minnst fjármagn. Með nýja fyrirkomulaginu geta þeir sem hafa efni á því væntanlega keyrt hraðar en aðrir gegn greiðslu. Verið er að taka framþróun undanfarinna áratuga, jafnvel 80 ára, og færa hana aftur á bak. Við vorum komin á þann stað að flestir höfðu efni á að eignast bíl. Nú á það ekki að líðast lengur að flestir hafi efni á slíku. Nei, nú skulu bara þeir sem hafa efni á að borga öll nýju gjöldin sem verið er að leggja á (Forseti hringir.) og verið er að finna upp hafa rétt á slíku. Þetta er lýsandi fyrir raunverulegar afleiðingar sósíalískrar stefnu. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Vilduð þér vera svo vænir að setja mig aftur á mælendaskrá.