150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[14:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Miðað við hvað þetta er stórt og umfangsmikið mál, frumvarp um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, er alveg stórfurðulegt að ekki skuli fleiri taka til máls í umræðunni um það. Við erum að tala um að lágmarki tugi milljarða, mögulega 100 milljarða skuldbindingu fyrir ríkissjóð, og það er eins og þingmenn hafi ekki áhyggjur af því. Það er eins og þetta sé óþægilegt mál, t.d. fyrir stjórnarmeirihlutann, sem á bara að tala sem minnst um. Þess vegna er mjög mikilvægt, herra forseti, að við reynum að draga fram allar spurningar, allar þær vangaveltur og alla fyrirvara sem þarf að hafa uppi við mál sem þetta.

Ég velti því fyrir mér hver endanleg skuldbinding ríkissjóðs af þessu getur orðið. Ég velti líka fyrir mér hvernig flytjendur eða stuðningsmenn þessa máls ætli að ramma inn að skuldbindingin geti ekki orðið óendanleg. Ég fæ ekki séð, hvorki í þessu máli né öðrum, að það sé gert. Ég get heldur ekki séð hvernig mönnum dettur í hug að ríkisvaldið láti af hendi eignir sem eru milljarða virði án þess að það sé klárt að ríkið hafi eitthvað um það að segja eða geti nýtt sér seinna meir forgang eða eitthvað slíkt að þessum eignum. Maður spyr sig: Til hvers?

Það er eins og það sé gert ráð fyrir því, virðulegi forseti, að sveitarfélögin hafi ábata af t.d. lóðasölu eða lóðaverðmætum sem kunna að skapast vegna þessarar borgarlínu, þótt margir haldi því reyndar fram að það rýri eignir ef af þessu mikla fyrirbæri verður. En ríkið á einhvern veginn að sitja eftir, nema deila mögulega ábatanum af sölu á landi sem ríkið á í dag, með þessu félagi.

Hv. þm. Birgir Þórarinsson er með minnihlutaálit í fjárlaganefnd er varðar mál þetta. Í því er farið ágætlega yfir mikið af þeim vangaveltum og fyrirvörum og spurningum sem við höfum uppi. Það er mjög vel fjallað um þá óvissu sem ríkir um verkefnið. Það hefur oft verið kvartað yfir því í þingsal að ýmis lagasetning sé óviss, það sé óvissa um túlkun á lögum og þess háttar. Það hefur komið fyrir að við höfum fengið í fangið aftur lög sem við höfum samþykkt, það hefur þurft að laga þau vegna þess að ekki var gætt nóg að orðalagi eða skýrt hvað átt var við. Mér þykir það eiga við um þau frumvörp og þingsályktunartillögur og annað sem tengist þessu samkomulagi, það sé loðið. Kannski kjósa menn bara að hafa það þannig til þess að geta túlkað hlutina síðar.

Mig langar að grípa aðeins niður í nefndarálit minni hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Mikil óvissa er uppi hvað varðar skipulag, framkvæmd, rekstur og fjármögnun þess hluta samkomulagsins sem snýr að borgarlínu. Vegna þess er óforsvaranlegt að ráðstafa tugum milljarða í þann hluta verkefnisins. Enn liggur engin rekstraráætlun fyrir.“

Manni hefði fundist að þeir sem annt er um fjárhag ríkissjóðs, annt um peninga skattborgaranna, ættu að reyna að svara þessum spurningum, að hafa svörin á hreinu varðandi skipulag, framkvæmd, rekstur og fjármögnun þessa borgarlínuverkefnis. Þetta er risaverkefni ef á að fara í það eins og lagt er upp með, risaverkefni upp á tugi milljarða. Það er gert ráð fyrir að þegar upp er staðið leggi ríkið inn í allar þessar samgönguframkvæmdir í þessum sáttmála 105–115 milljarða. Borgarlínan ein virðist vera a.m.k. 50 milljarðar. Þetta verkefni mun fara fram úr áætlun. Það er óábyrgt að gera ekki ráð fyrir því hvernig fara eigi með þá framúrkeyrslu. Ég ítreka, herra forseti, og ég gerði það í fyrstu ræðu minni um þetta mál, að þetta verkefni mun fara fram úr. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem erum fullvissir um að svo verði að það sé skráð í skjöl Alþingis.

Síðan kemur hér fram, með leyfi forseta:

„Í frumvarpinu kemur fram að gera beri hluthafasamkomulag. Í slíku samkomulagi felast grundvallarskuldbindingar milli aðila sem varpa skýrri mynd á það með hvaða hætti menn ætla að starfa saman og takast á við ágreiningsmál ef upp koma. Þar sem um er að ræða félag sem mun lifa a.m.k. þrjár til fjórar ríkisstjórnir“ — það er reyndar ekki alveg fyrirséð hversu lengi það mun lifa, mögulega lengur — „og fjölda bæjar- og sveitarstjórna má ætla að fram komi ágreiningur. Því er mikilvægt að samkomulag þetta liggi fyrir áður en gengið er frá stofnun félagsins.“

Hv. þingmaður er réttilega að benda á að það er verið að byrja á öfugum enda. Hér er verið að stofna félag áður en búið er í rauninni að gera samkomulag um hvernig eigi að útfæra hlutina, ágreining og annað. Það hefði verið kostur að klára það fyrr.

Síðan er hér talað um stýrihóp sem hefur ákveðið hlutverk. Hv. þingmaður fer líka ágætlega yfir fjármögnunina sem skiptir miklu máli, að sjálfsögðu. Hann segir svo á bls. 2, með leyfi forseta:

„Samkvæmt 6. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að fullbúnum samgöngumannvirkjum verði ráðstafað ýmist til ríkis eða viðkomandi sveitarfélags. Í frumvarpinu er ekki að sjá hvernig fara skal með þau tilvik þegar fullbúin samgöngumannvirki reynast dýrari eða ódýrari en sem nemur verðmæti eignarhluta þess sem fær mannvirkið.

Verulegur annmarki er á því að ekki skuli tekið á því hvernig bregðast skuli við umframkostnaði verkefna, falli hann til.“

Ég er sammála hv. þingmanni með þetta og er hluti af því sem ég nefndi fyrr í þessari ræðu. Þarna er mikil óvissa um hluti sem skipta gríðarlega miklu máli. Hvernig er með ráðstöfun á þessum mannvirkjum og hvernig á að fara með framúrkeyrsluna sem verður? Hvernig á að fara með kostnaðinn sem hlýst af þessu?

Menn verða að gera sér grein fyrir því að þeir fjármunir sem munu renna í þetta verkefni, hvort sem það er beint úr ríkissjóði eða með einhvers konar gjöldum sem menn hafa uppi hugmyndir um — sem er reyndar algerlega óvíst að náist að framkvæma eða ná samkomulagi um eða sátt, það segir að það eigi að nota aðra fjármuni í þann hluta, 60 milljarða sem á að fjármagna með þeim hætti — þeir peningar fara ekkert í annað, í önnur verkefni. Þeir fara ekki í önnur samgönguverkefni. 50 milljarðarnir sem eiga að fara í borgarlínu fara ekki í það að fækka einbreiðum brúm eða byggja upp önnur samgöngumannvirki á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ríkið er mögulega að skuldbinda sig um tugi milljarða í framúrkeyrslum þá fara þeir fjármunir heldur ekki í annan rekstur ríkisins, hvort sem þarf að byggja hjúkrunarheimili eða bæta kjör þeirra sem lakast standa. Þessir peningar verða ekki notaðir margoft. Því er það mikill ábyrgðarhluti að ætla að búa til samkomulag, setja lög og samþykkja svona hluti án þess að það sé algjörlega fyrirséð hvernig það endi eða það sé takmörkun á framlagi ríkisins í þetta verkefni.

Það er alveg ljóst að það verður að draga upp á yfirborðið hvers vegna stjórnmálamenn á Alþingi vilja ekki hafa slíka fyrirvara á hreinu. Það verður að koma fram hverjir leggjast gegn því að það sé algerlega klárt hver endanleg tala ríkissjóðs er þegar að þessu kemur. Þeir hinir sömu verða vitanlega að axla ábyrgð á því og hljóta að þurfa að svara okkur hvar þeir ætli að taka þá fjármuni sem framúrkeyrslan mun kosta. Eru þeir tilbúnir til þess að minnka framlög til annarra verkefna? Því það er algerlega kristaltært, herra forseti, að þetta verkefni mun verða miklu dýrara en þarna er gert ráð fyrir. Ég kalla eftir því að menn komi hingað upp og segi hvers vegna þeir vilji ekki hafa þessa fyrirvara harðari og skýrari en þeir eru í dag því að það eru þeir sem þurfa að svara fyrir það þegar framúrkeyrslan verður að raunveruleika.