150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[16:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Frú forseti. Ég held áfram að ræða um þetta opinbera hlutafélag sem á að stofna. Aðild eiga ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og leggja þar til fjármuni til að byggja upp samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrautir, hjóla- og göngustíga og borgarlínu. Gert er ráð fyrir að bein framlög frá ríki og sveitarfélögum til verkefnisins verði 3 milljarðar kr. á ári. Það eru 250 milljónir á mánuði, 8 milljónir á dag. Þetta er gífurleg umfangsmikið og ekki vanþörf á, frú forseti. Ég sé alls ekki á eftir þessum fjármunum í vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu, alls ekki. Ég tel að það sé löngu kominn tími til að vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu og í grennd við höfuðborgina verði byggt upp. Það hefur sannarlega verið löng bið eftir því. Uppsöfnuð þörf er mikil. En eins og ég hef sagt áður er ég ekki hrifinn af því að leggja fjármuni að svo stöddu í hina svokölluðu borgarlínu.

Ég er hlynntur því að byggja upp almenningssamgöngur og það hefur verið gert undanfarið, heldur betur, en tekist fremur illa. Reiknað er með að þetta opinbera hlutafélag verði í 75% eigu ríkisins og í 25% eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að meðtalinni höfuðborginni Reykjavík. Hlutafélagið er stofnað til að efna sáttmála sem var gerður í lok september síðastliðins á milli þessara aðila. Þar var gert samkomulag um uppbyggingu samgönguinnviða, sáttmáli eins og það er kallað í greinargerð frumvarpsins en er annars staðar kannski frekar kallað höfuðborgarsáttmálinn. Hér er verið að uppfylla þær skuldbindingar sem felast í þeim samningi. Það hefur ekki orðið af stofnun félagsins enn þá. Frumvarpið mælir fyrir um stofnun félagsins en á meðan annast verkefnastofa um borgarlínu í samstarfi við Vegagerðina undirbúning verkefnisins um uppbyggingu á samgönguinnviðum.

Ég er pínulítið hugsi yfir því að verkefnastofa borgarlínu sinni þessu verkefni á meðan félagið er ekki stofnað. Af hverju skyldi það vera? Af hverju skyldi það heita verkefnastofa borgarlínu þegar maður heyrir ítrekað hjá sumum þingmönnum stjórnarliðsins að þetta snúist ekkert um borgarlínu? Samt heitir hún verkefnastofa borgarlínu. Ég hélt að stofnbrautir og uppbygging ýmissa annarra vega, hjólreiðastíga og göngustíga væri stór hluti af verkefninu en samt heitir undirbúningsapparatið verkefnastofa borgarlínu. Af hverju skyldi það vera? Sá sem ræður ferðinni er auðvitað meiri hlutinn í Reykjavík og megináherslan er á borgarlínu. Ég er hræddur um það, frú forseti, að þegar fram líða stundir og þetta hlutafélag lifir sína tíð þá muni megináherslan verða á þetta verkefni, sem ég hef kosið að kalla draumaverksmiðju vegna þess að draumarnir verða aldrei uppfylltir þó að menn sjái fram á að geta gælt við verkefnið um áraraðir og áratugi. Þetta hefur ekki tekist síðasta áratuginn og erfitt að sjá fyrir að það muni gerast á næstu árum. En að sjálfsögðu er ég tilbúinn og mæli því alls ekki í mót að reyna að byggja upp og gera allt til að byggja upp öflugar almenningssamgöngur.