150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[17:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég var ekki alveg búinn með nefndarálit meiri hlutans en ég ætla að geyma það aðeins og fara aftur í nefndarálit minni hlutans sem hv. þm. Birgir Þórarinsson skrifar undir. Þar er varað við ýmsum hlutum í frumvarpinu og hvernig framtíðarskipan þessara mála geti orðið. Mig langar að grípa niður í nefndarálitið á bls. 2 en þar segir, með leyfi forseta:

„Í 5. kafla greinargerðar frumvarpsins kemur fram að sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fyrir Alþingi var ekki haft samráð um drög að frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda. Gera verður athugasemd við að þessi ágæti samráðsvettvangur, sem komið hefur verið upp til þess að tryggja gæði lagasetningar og að almenningur og hagsmunaaðilar geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri, sé ekki notaður.“

Samráðsgáttin var einmitt sett upp til þess að almenningur gæti haft aðgang að málum og komið sjónarmiðum á framfæri. Mér býður í grun að mjög margir íbúar höfuðborgarsvæðisins hafi sterkar skoðanir á borgarlínu og þar á meðal mögulega þessu frumvarpi. Það verður að taka undir það að hraðinn, eða hvað á að kalla þetta, æsingurinn í að koma málinu hér í gegn, hafi orðið til þess að ákvörðun hafi verið tekin um það af hálfu meiri hlutans að leyfa almenningi ekki að koma með athugasemdir í gegnum samráðsgáttina sem hefur verið kynnt sérstaklega sem farvegur fyrir athugasemdir almennings. Sumir vita af því að allir geta skilað inn athugasemdum við þingmál en það er kannski ekki jafn þekkt og vel kynnt og þessi leið, samráðsgáttin.

Síðan segir í álitinu, með leyfi forseta:

„Í greinargerð frumvarpsins kemur einnig fram sá möguleiki að í stað þess að ríkissjóður tryggi verkefninu 15 milljarða kr. með þróun og sölu á Keldnalandinu komi til greina að framlagið komi úr sambærilegu landi. Ekki er að finna neina leiðbeiningu í frumvarpinu um það til hvaða lands er horft.“

Það væri áhugavert að fá að vita hvaða land er átt við þarna eða hver meiningin er því að Keldnalandið er gríðarlega verðmætt. Um það þarf enginn að velkjast í vafa. Í rauninni má velta því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum ríkisvaldið hefur ekki gert ráðstafanir fyrr með það land, þ.e. að skipuleggja það undir byggingar eða framkvæmdir á vegum ríkisins. Það er vitanlega þekkt að ríkið þarf að endurnýja reglulega húsnæði sitt og laga það að nútímanum, hvort sem um er að ræða byggingar fyrir Stjórnarráðið, spítala, ríkisskóla eða hvað það er. Þarna er verið að taka mjög verðmætt land og setja það inn í þetta opinbera hlutafélag.

Síðan segir í álitinu:

„Í skýringum við 6. gr. frumvarpsins kemur fram að fjármagnsskipan félagsins hafi ekki verið endanlega útfærð. Þegar um jafn kostnaðarsamt og flókið verkefni er að ræða og lögunum er ætlað að hrinda í framkvæmd verður að ætla að betur færi á því að hafa gengið frá þeirri útfærslu áður en frumvarpið var lagt fram.“

Undir þetta er algerlega hægt að taka. Það er ekki búið að útfæra fjármagnsskipan félagsins. Þetta sér maður oft þegar verið er að spara tíma við verkefni eða slugsa við hlutina, þá gera menn þetta svona. Ég tel að ekki hafi verið staðið nógu vel að málum þegar ekki er búið að útfæra þetta.

Þá kemur líka fram, með leyfi forseta:

„Engin útfærsla liggur fyrir á framkvæmd gjaldtöku og ekki er að sjá að unnið sé að henni á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Með þessu má leiða líkur að því að allt bendi til þess að á endanum verði það ríkissjóður sem standi straum af 105 milljörðum kr. af 120 milljörðum kr. sem samgöngusáttmálinn nær til.“

Eru þingmenn tilbúnir að binda svo stóran hluta af fjárveitingum ríkisins á næstu árum í verkefni sem þessu? Hvernig kemur það niður á öðrum verkefnum? Hvaða áhrif mun þetta hafa á aðrar skuldbindingar ríkissjóðs í umhverfi þar sem ríkissjóður er að auka skuldir sínar og tekjur að dragast saman og þar sem er augljóst að þeir sem bera ábyrgð á ríkissjóði þurfi að forgangsraða með öðrum hætti en gert hefur verið?

Ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá, herra forseti.