150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[17:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Við ræðum enn þá félagið sem á að stofna um framkvæmdirnar sem þetta allt snýst um. Eflaust má hafa skoðanir á því hvort leiðin sem er farin sé endilega sú rétta og besta. Þetta er að mínu viti örugglega mjög góð leið fyrir sveitarfélögin sem að þessu standa, að ná einhvern veginn að hengja ríkið á vagninn, sporvagninn, strætóinn, lestarvagninn eða hvað þetta verður á endanum, sem einhvers konar farþega sem hefur lítið um það að segja hvaða leið þessi vagn gengur, lítið um það að segja hvar hann stoppar og enn þá minna um það að segja hvar hann stoppar á endanum vegna þess að væntanlega mun verkefnið verða þannig að það stoppar bæði seint og illa, þ.e. ófyrirsjáanleikinn er mikill.

Það er mjög sérstakt að stjórnarflokkarnir skuli leggja af stað í slíkt ferðalag með vagni sem er merktur óvissuferð. Auðvitað hafa óvissuferðir ákveðið yfirbragð sem bendir til þess að þar sé partí og gleði og eitthvað þess háttar. Þessi óvissuferð er kannski full af partíum og gleði fyrir þá sem munu brasa í kringum verkefnið en hins vegar held ég að hún muni á endanum reynast mjög dýr fyrir íbúana, skattgreiðendur landsins, þegar þarf að fara að greiða fyrir ferðalagið, borga fyrir það sem farþegarnir, þ.e. stjórnarflokkarnir, gerðu af sér í þessu ferðalagi.

Ein af fyrstu myndunum sem birtust af ríkisstjórninni sem nú situr var tekin í gegnum glugga á ráðherrabústaðnum. Þar sást skálað í kampavíni. Ríkisstjórnin var kölluð kampavínsstjórnin í smátíma á eftir. Þau töldu ástæðu til að skála fyrir þeim mikla árangri að hafa komið þessum þremur flokkum saman. Það er reyndar svo sem ekkert sérstakt afrek í ljósi þess að stjórnarsáttmálinn er meira svona eins og grá súpa sem er bragðlaus og lítilfjörleg. En ég velti því fyrir mér hvort kampavínsstjórnin sé orðin próflaus og þurfi því að taka strætó út um allar trissur, stökkva upp í borgarlínuna til að komast á leiðarenda. Það er þá líklega einhver dýrasta ferð sem farin hefur verið því að kostnaðurinn liggur ekki fyrir og maður veltir fyrir sér hvort ekki hefði verið betra að sitja áfram í bústaðnum og skála meira. En þetta er valkostur stjórnarflokkanna og það er sérstaklega áhugavert að sjá að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa skellt sér um borð, sitja í fjórðu sætaröð eða eitthvað slíkt meðan Vinstri græn ýta vagninum áfram og aðrir eru við stýrið.

Þetta er kostur sem þessir flokkar ákváðu að velja. Ég hef áhyggjur af því að þegar ferðinni lýkur verði ekki bara vistirnar búnar heldur verði reikningurinn sem verður sendur skattgreiðendum mjög feitur. Það er ein ástæðan fyrir því að maður varar við því að farið sé í þetta ferðalag, varar við því að ríkisstjórnarflokkarnir stökkvi upp í vagninn og ani með honum hvert sem hann er að fara. Óvissuferðin sem frumvarpið boðar, sem allur þessi málatilbúnaður býr til og boðar, er slík að menn ættu ekki að láta sér detta í hug að stökkva um borð. Ég segi það nú bara.

Það er svo magnað við þetta ferðalag allt saman að það eina sem er fyrirséð, það eina sem ekki er óvissa um, er að þetta mun reynast miklu dýrara en áætlanir gera ráð fyrir. Miklu dýrara. Þess vegna veltir maður fyrir sér: Hvers vegna taka menn slíka áhættu? Hvers vegna fara menn í slíkt ferðalag? Sáttmálinn sem skrifað er undir er eins og einhvers konar þvingun, eins og menn hafi verið þvingaðir (Forseti hringir.) upp í þennan vagn, og komist ekki úr því ferðalagi.