150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[17:46]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég var að fara yfir nefndarálit meiri hlutans um frumvarpið og ræða um stofnun þessa hlutafélags. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að félaginu er ætlað lykilhlutverk í uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu en eðli máls samkvæmt hefur það ekki lokið samningsgerð um forgangsröðun og fjármögnun. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa haft ólíka sýn á lausnir í samgöngumálum en félaginu er ætlað að ná sátt um lausnir og gera samninga af ýmsu tagi, svo sem við Vegagerðina um útboð framkvæmda og um þróun á landi ríkisins við Keldur til að hámarka virði þess. Þessi verkefni félagsins eru eðlisólík en mjög mikilvægt er að vel takist til við samningagerðina í því skyni að ná fram sem mestri hagkvæmni við uppbygginguna.“

Herra forseti. Að mínu áliti er þessi hugsun afskaplega skammt á veg komin, þ.e. hvernig þetta félag á að virka. Það kemur fram í textanum sem ég var að lesa að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa ólíka sýn og félagið á að ná einhvers konar sátt þar um og það á að gera samninga. Þar kemur hlutverk Vegagerðarinnar til skoðunar. Vegagerðin hefur það hlutverk að sjá um vegagerð eins og nafnið gefur augljóslega til kynna. Þarna er kominn milliliður á milli ríkisins, fjárveitingavaldsins, og Vegagerðarinnar sem er þetta opinbera hlutafélag. Þetta opinbera hlutafélag á að sjá um tvo meginþætti, þ.e. uppbyggingu samgönguinnviða, sem felast í stofnbrautum, hjólastígum, göngustígum o.s.frv., og einnig um borgarlínu og það er verið að greina þarna á milli í kostnaðartölunum, eins og kemur fram í frumvarpinu: Borgarlína fær ákveðnar upphæðir og síðan eru aðrar upphæðir til annarrar uppbyggingar á svæðinu.

Hver mun hafa umsjón og eftirlit með því að við þetta verði staðið, að samsvarandi hlutfall fjármuna fari í þessi gerólíku verkefni, þ.e. almenningssamgöngur og síðan uppbyggingu á stofnbrautum og mislægum gatnamótum o.s.frv. hér á höfuðborgarsvæðinu sem er annars vegar á vegum ríkisins og hins vegar á vegum sveitarfélaganna? Hver ætlar að hafa eftirlit þar fyrir ríkissjóð? Jú, það eru þeir aðilar sem ríkisvaldið tilnefnir í stjórn þessa hlutafélags. En svo eru þessar hugmyndir skammt á veg komnar að í frumvarpinu er gert ráð fyrir sex stjórnarmönnum, þremur sem eru tilnefndir af ríkinu og þremur frá sveitarfélögunum. Það var ekki einu sinni hugsað fyrir því, svo mikill er hraðinn í þessu, að ef upp kæmi eitthvert ágreiningsmál, og menn þyrftu að greiða atkvæði í stjórninni, gætu atkvæði fallið jafnt. Eina breytingin sem nefndin gerir á frumvarpinu er einmitt hvað þetta varðar. Þetta er svo augljóst, herra forseti, að það sætir furðu að ekki hafi verið tekið á þessu í upphaflega frumvarpinu. Í áliti meiri hlutans segir:

„Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Á eftir 3. málsl. 5. gr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Atkvæði formanns ræður úrslitum falli atkvæði jöfn innan stjórnar.“

Slík augljós leiðrétting á frumvarpi sem varðar svona gífurlega fjármuni eins og þarna er verið að leggja til bendir til þess að hraðinn sé of mikill, óðagotið of mikið. Það liggur svo á að klára málið að menn gleyma jafn augljósu atriði og þessu. Ég er ekki að segja að þetta skipti stóru máli en það er svo augljóst að þetta hefði ekki átt að fara fram hjá þeim sem sömdu frumvarpið ef þeir hefðu haft einhvern örlítinn tíma til íhugunar og til að fara yfir málið. Það virðist ekki hafa verið þannig.