150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[18:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að sjá yður og ég vona að hæstv. forseti hafi náð að fylgjast með ræðum mínum áðan þar sem ég rakti pólitískt eðli þessa máls og útskýrði hvers vegna þetta er í grunninn sósíalískt frumvarp sem miðar að því að breyta samfélaginu út frá kenningum sósíalískrar verkfræði eða samfélagsverkfræði. Ég setti þetta meira að segja í samhengi við Austur-Þýskaland og það var ekki að ástæðulausu því að þetta frumvarp hefði fallið mjög vel að hugmyndum manna þar og þeir eflaust orðið hrifnir af því hversu langt er gengið í að tryggja vald þessa nýja samgöngusovéts yfir allri þróun samgangna á höfuðborgarsvæðinu til langrar framtíðar.

Ég rakti líka hverjar afleiðingarnar af þessu yrðu. Eins og jafnan með svona sósíalískar tilraunir koma þær illa út fyrir alla. Með öðrum orðum er með þessu máli verið að færa alla neðar í stað þess að fylgja eftir stefnu, m.a. Sjálfstæðisflokksins, í Reykjavíkurborg á áratugum áður um að reyna að bæta kjör allra, lyfta öllum aðeins ofar, gefa fólki tækifæri á að öðlast frelsi, eignast fjölskyldubíl, eignast íbúð sem hentaði fjölskyldustærðinni o.s.frv. Nú á að neyða alla í borgarlínu með neyslustýringu, setja alla í sem minnstar íbúðir með engu bílastæði og tryggja að menn séu ekki að þvælast út fyrir þau mörk sem borgarlínan og hitt strætókerfið marka.

Svo fór ég aftur í frumvarpið sjálft til að rökstyðja þetta enn frekar. Ég var kominn að 3. kafla í greinargerðinni, en yfirskrift hans er: Meginefni frumvarpsins. Ég ætla ekki að lesa þann kafla allan, hann er ekkert mjög langur en ég er að reyna að spara tíma og ætla því að fara beint í setningu sem er aftarlega í kaflanum. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þá er gert ráð fyrir að 60 milljarðar kr. verði fjármagnaðir með flýti- og umferðargjöldum en aðrir fjármögnunarkostir verða þó skoðaðir samhliða orkuskiptum og endurskoðun á skattlagningu á ökutæki og eldsneyti.“

Hér er hnykkt á því að hluti af þessu sé ekki bara það að ríkið sé að skrapa saman og selja eignir til að geta fjármagnað kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík heldur standi einnig til að leggja nýjar álögur á íbúa höfuðborgarsvæðisins, nýja skatta. Við þetta er þó því að bæta, sem ég sé ekki nefnt hér, að borgin hefur einnig farið fram á aukið skattlagningarvald og gekk svo langt að senda ráðherranum, væntanlega ráðherra samgöngumála, bréf þar sem borgin var búin að skrifa hvernig greinar laganna ættu að vera og meira að segja að bæta greinargerðinni við. Borgin er náttúrlega illa stödd fjárhagslega eins og menn þekkja og þó að hún eigi bara að fjármagna lítinn hluta af þessu ævintýri vill hún fá nýjar skattlagningarheimildir til þess, að ríkið samþykki að borgin geti skattlagt íbúana enn meira á sama tíma og ríkið sjálft boðar ný gjöld. Svoleiðis að allt þetta, sala ríkiseigna og nýir skattar, bæði frá ríki og borg, eiga að fara í að ráðast í þetta verkefni sem liggur mjög á að klára eins og má sjá í 5. kafla sem heitir Samráð. Í lok þess kafla segir, með leyfi forseta:

„Sökum þess hversu áríðandi þótti að leggja frumvarpið fram á Alþingi var ekki haft samráð um drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda.“

Þetta er kaflinn um samráð, herra forseti, ég minni á það. Með öðrum orðum: Stjórnvöld vilja ekki að þetta mál sé rætt, þau vilja fá sem minnsta umræðu um það enda er innihald og eðli málsins slíkt að maður hlýtur eiginlega að sýna því skilning að ef stjórnvöld hafa látið hafa sig út í þetta á annað borð (Forseti hringir.) þá munu þau vilja lauma því í gegn með sem allra minnstri umræðu. — Ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.