150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:04]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla bara fara yfir þetta mál í aðalatriðum núna fyrst þetta er fyrsta ræða dagsins. Við sem hér erum á Alþingi erum auðvitað vörslumenn skattfjár almennings og okkur ber að gæta þess að fara vel með skattpeninga og ráðstafa fjármunum ríkissjóðs skynsamlega og með eins ábyrgum hætti og við mögulega getum. Við eigum að taka skynsamlegar ákvarðanir. Við eigum að verja peningunum, skattfénu, til góðra verka og í þágu almennings. Hér erum við að fjalla um stofnun hlutafélags sem á að byggja upp samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu sem mikil þörf er á og er skynsamlegt. Það er skynsamlegt að byggja upp stofnbrautir og mislæg gatnamót, hjólastíga, göngustíga, Sundabraut, tvöfalda einhverja stofnvegi og fleira. Það er skynsamlegt. Hvernig það nákvæmlega er gert er auðvitað í höndum fagmanna.

Að byggja rauðan dregil fyrir borgarlínu er verkefni sem, eftir því sem ég best fæ séð á þeim gögnum sem liggja fyrir og það sem ég hef séð og kynnt mér um borgarlínu, er framkvæmd sem ekki er vel útfærð. Hún er ekki fyllilega útfærð, alls ekki. Menn vita ekki nákvæmlega þegar þeir hefja þessa vegferð hvar hún endar. Menn vita ekki hversu mikið hún verður notuð. Um það vitna fjölmargar greinar og álit og ræður hér á þingi, ekki bara Miðflokksmanna heldur fleiri ræðumanna um að þarna sé verið að fara í vegferð þar sem stór hætta sé á því að mjög mikið af fjármunum, af almannafé, verði sóað í framkvæmd sem gagnast tiltölulega fáum. Í dag nýta u.þ.b. 4% almenningssamgöngur til að komast leiðar sinnar. Verkefnið gengur út á það að setja almenningssamgöngur raunverulega í fyrsta sæti hér á höfuðborgarsvæðinu og önnur umferð á að víkja. Þeir sem kjósa að fara á fjölskyldubílnum til og frá vinnu mega búast við því að sitja um ókomin ár fastir í umferðarteppum eins og raunin hefur verið síðustu ár og þeir munu halda því áfram. Miðflokksmenn eru talsmenn ábyrgrar fjármálastjórnar, ábyrgrar meðferðar almannafjár og borgarlína er þannig verkefni að við teljum að stór hætta sé á að verið sé að fara frjálslega með skattfé almennings. Um það vitna fjölmargar greinar.

Áður en ég lýk máli mínu ætla ég að lesa aðeins upp úr umsögn Ríkisendurskoðunar um þetta frumvarp um stofnun opinbers hlutafélags sem á að hafa með þessar framkvæmdir að gera. Í lok umsagnarinnar stendur, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun telur ekki efni til þess að embættið velti fyrir sér meginefni frumvarpsins um heimild til að stofna til opinbers hlutafélags um þær framkvæmdir sem eru í undirbúningi.“

Svo segir Ríkisendurskoðun, með leyfi forseta:

„Rétt þykir þó að benda á mikilvægi þess að áætlanagerð áður en kemur að framkvæmdum sé bæði ítarleg og gagnsæ. Eins og nú háttar til virðist margt í svokallaðri Borgarlínu vera óljóst. Er því athugasemd þessi sett fram til að árétta mikilvægi vandaðrar áætlanagerðar.“

Það er mergurinn málsins. Í örstuttu máli er það mergurinn málsins. Menn eru ekki búnir að leggja á borðið nákvæmlega hvernig þeir setja niður fyrir sér fyrir hvernig þessi borgarlína eigi að vera, fyrir hverja hún eigi að vera, hvaða áhrif hún hafi á aðra umferð og hversu miklum fjármunum verði varið í hana.