150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:39]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég var að fara yfir rekstur borgarlínu og ég var að lesa fyrir ykkur og leggja út frá ritgerð í Háskóla Íslands eftir Pálma Sigurjónsson þar sem hann fer yfir þjóðhagslega hagkvæmni borgarlínunnar. Þetta er mjög athyglisverð ritgerð þar sem hann fer yfir hvað þetta muni kosta og hvernig þetta verði rekið, hver sé kostnaðurinn við þetta og rekstrarkostnaður og svo tímalínan.

Ég var búinn að benda á að það er athyglisvert að forsvarsmenn borgarlínu gera ráð fyrir því, herra forseti, að hlutur almenningssamgangna muni fara úr 4% í 12% til ársins 2040 og höfundur ritgerðarinnar segir að þetta sé bjartsýnt. Ég get fyllilega tekið undir það. Þetta er bjartsýnt. Það er auðvitað ekki hægt að reikna sig alltaf upp í hlutina með þessum hætti, að allt muni ganga vel og allir muni taka strætó eftir 19 ár. Það gengur auðvitað ekki. Við getum bara ekki farið með fé skattgreiðenda með svona mikilli léttúð. Það bara gengur ekki. Við verðum að standa okkur betur. Skattfé almennings á ekki að umgangast á þennan hátt.

Ég fór yfir núverandi rekstrarkostnað sem kemur fram í þessari ritgerð. Ég sel það reyndar ekki dýrara en ég keypti það en í ritgerðinni kemur fram að rekstrargjöld almenningsvagna, Strætó bs., hafa verið 7 milljarðar og nálgast 8 á árinu 2017. Ég hef ekki nýrri tölur en rekstrargjöldin hafa hækkað um 400 milljónir á milli ára, milli áranna 2016 og 2017 hækkuðu rekstrargjöldin um 450 milljónir. Og hvað skyldu fargjöldin hafa hækkað á sama tíma? Á meðan rekstrarútgjöldin hækka um 450 milljónir, hækka fargjöldin, herra forseti, um 68 milljónir. Sem sagt útgjöldin um 450 og fargjöldin um tæpar 70. Og það á enn að gefa í. Borgarlína, miðað við þessa ritgerð, mun kosta á hverju ári, rekstrarkostnaðurinn samkvæmt þessari ritgerð þar sem höfundur er að meta hann, 4,7 milljarða. Það bætist við rekstrarútgjöld vegna almenningsvagna upp á 7,8 milljarða. Og þar er ég með tveggja ára tölur.

Við erum að tala um að rekstrarkostnaður almenningsvagna fari hugsanlega upp í rúma 12 milljarða þegar borgarlínan verður komin í gagnið, 12 milljarða og tekjurnar núna nálgast 1,9 milljarða. Þær gætu auðvitað hækkað með öflugra kerfi en við erum að tala um 10 milljarða kr. tap á hverju einasta ári.

Hvert stefnum við? Þetta á bara að samþykkja hér á Alþingi og það eru allir flokkar sem dásama þetta nema Miðflokkurinn. Við leyfum okkur fyrir hönd skattgreiðenda að deila á þetta og tala um þetta og leiða í ljós og láta sannleikann komast upp á borðið. Þetta er algerlega óútfærð framkvæmd, óútfærð og sérstaklega er það algjörlega óútfært hvernig reksturinn verður, hversu mikið tapið verður, hvað þetta mun kosta á ári og hverjir munu greiða brúsann. Verða veggjöld fyrir bifreiðaeigendur hér á höfuðborgarsvæðinu eða verða fargjöldin hækkuð? Það er ekkert búið að hugsa þetta til enda.