150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:16]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Eins og ég fór yfir við 2. umr. um málið er hér ekki passað upp á það sem var gert með Matvælasjóð. Þegar atvinnuveganefnd fékk til sín málið um Matvælasjóð passaði hún upp á að það væri ekki bara stjórn sjóðsins sem réði því hvernig almannafé væri úthlutað úr sjóðnum til mikilvægra verkefna heldur væri líka fagráð þar undir skipað sjö aðilum með breiða skírskotun í samfélaginu, aðilum sem væri gott að fá í ráðið varðandi iðnaðinn, nýsköpun og atvinnulífið o.s.frv., bara til þess að tryggja að þessir aðilar væru þarna og gætu gefið sjónarmið, þ.e. að sú stjórn sem ráðherra skipar skyldi hafa samráð við þetta fagráð.

Því er ekki að skipta í þessu frumvarpi. Það er ekki passað upp á að hlustað sé á sjónarmið eða aðrir aðilar tilnefndir eins og með Matvælasjóð. Í Matvælasjóði eru fjórir stjórnarmenn, þar af er einn skipaður af ráðherra eftir tilnefningu Bændasamtakanna og annar er tilnefndur af sjávarútveginum. Það eru þannig tveir stjórnarmenn sem eru tilnefndir af aðilum sem þurfa að starfa innan löggjafarinnar. Svo skipar ráðherra tvo án tilnefningar og skipar formann þannig að ráðherra hefur í rauninni valdið í þessu en sjónarmið frá þeim atvinnugreinum sem verið er að styrkja og efla nýsköpun í eru í stjórninni sjálfri, hjá tveimur af þeim aðilum. Undir stjórninni er svo fagráð þar sem fleiri sjónarmið koma fram til að passa upp á að það séu nógu mörg sjónarmið þegar verið er að útdeila almannafé, þegar verið er að styrkja nýsköpun í matvælaframleiðslu á Íslandi. Það er mjög gott. Þessi stjórn getur svo að sjálfsögðu leitað sér upplýsinga hjá fleiri aðilum og því fleiri því betra, upp að vissu marki vissulega. Því fleiri sjónarmið sem koma að borðinu, að því gefnu að það trufli ekki við framkvæmdina, þeim mun betra.

Orkusjóður er allt annað. Aftur er verið að útdeila almannafé, passa upp á að menn séu að færa sig í sjálfbærari orku, passa upp á að orkuskipti fari farsællega af stað. Orkusjóður hefur verið til en núna er verið að færa hann undan Orkustofnun og gera hann sjálfstæðan. Sjóðurinn hefur verið undir stofnuninni allan þennan tíma og þar eru alls konar fagleg sjónarmið sem þarf að passa upp á, þar er stofnanareglugerð og verklag til staðar og Orkusjóður undir Orkustofnun hefur verið farsæll í mjög langan tíma, ég man ekki hvað það eru mörg ár. Hv. þingmaður og framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, talaði um að um 100 milljarðar hefðu sparast, ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Nei, það hefðu 80 milljarðar sparast við þessi orkuskipti á sínum tíma. Það er hitaveituarmurinn af því. Það eru því engir smápeningar sem hafa skilað sér til hagsbóta fyrir samfélagið.

Núna er verið færa sig í þessi mikilvægu orkuskipti sem er tilgangurinn með þessu frumvarpi, eins og segir í 2. gr. með leyfi forseta:

„Hlutverk Orkusjóðs er að stuðla að hagkvæmri nýtingu orkuauðlinda landsins með styrkjum eða lánum, einkum til aðgerða er miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum.“

Þessi sjálfbærnivinkill er frábær, mjög góður, og Píratar munu greiða atkvæði með þessu.

Og áfram segir í 2. gr.:

„Orkusjóður styður jafnframt við verkefni sem stuðla að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum.“

Orkuöryggi, flott, og samkeppnishæfni á sviði orkumála líka. En hvað ef ráðherra skipar menn sem eru kannski ekkert endilega hrifnir af samkeppnishæfni á sviði orkumála? Þeir vilja kannski misfara með sitt vald og útdeila almannafé til aðila sem eru kannski ekkert endilega að hugsa um samkeppnishæfni á sviði orkumála, eru kannski ekkert endilega að hugsa um orkuöryggi eða að verkefnin séu sem best til þess fallin að ríma við það sem segir í lögunum og ríma ekkert endilega best við grundvöll orkustefnu eða nýsköpunarstefnu eða byggðastefnu eða stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Kannski eru einhver verkefni sem uppfylla ekki best þessar kröfur sem eru valin frekar en önnur við úthlutun. Og hverjir ráða úthlutun? Jú, ráðherra mótar stefnuna, ráðherra skipar alla þrjá aðilana í stjórnina. Meiri hlutinn kom þá með að það væru hæfniskröfur en það eru bara algjörar lágmarkshæfniskröfur, að vera með hreint sakavottorð og eitthvað svoleiðis smotterí. Ráðherra ákveður stefnuna, hann skipar þessa þrjá aðila og aflar fjármagnsins úr ríkissjóði sem er partur af hans hlutverki þar. Svo eru þessir þrír aðilar sem hann skipar. Okkur er sagt að þeir geti haft samráð við aðila. En það stendur ekkert um að þeir verði að gera það. Líklega gera þeir það en þá þurfa þeir að hafa samráð við Orkustofnun og mögulega aðra aðila ef tilefni er til.

Og hvað svo? Svo fara þeir í gegnum þessar umsóknir og leggja eitthvað til við ráðherra þannig að þetta er gjörsamlega innan fjölskyldunnar og það býður upp á freistnivanda. Og það er það eina sem ég hef verið að benda á í þessu máli, að þetta býður upp á freistnivanda. Er hægt að skjóta loku fyrir þann freistnivanda? Já, að hluta til er hægt að minnka hann. Það er hægt að ramma hlutverk ráðherra betur inn á faglegum forsendum þannig að fleiri sjónarmið komi fram um það hvernig eigi að útdeila almannafé til mikilvægra verkefna við að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum, verkefna sem stuðla að orkuöryggi, samkeppnishæfni á sviði orkumála og orkutengd verkefni á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum. Verkefnið er frábært og verkefnið er mikilvægt. Verkefnið getur spillst. Ef ráðherra freistast þá spillist verkefnið. Þess vegna er mikilvægt að reyna að ramma þetta inn þannig að ráðherra glími síður við þennan freistnivanda, hann freistist síður. Um það er breytingartillagan sem meiri hlutinn felldi við 2. umr. í þingsal, að við myndum gera nákvæmlega það sama og við gerðum með Matvælasjóð.

Hvers vegna þarf að passa upp á það að stjórn Matvælasjóðs sé ekki öll skipuð af ráðherra, að þar komi líka að aðilar í greinunum sem þar er undir, sjávarútvegi og landbúnaði? Hvers vegna þarf að passa upp á að í Matvælasjóði sé sjö manna fagráð til að fleiri sjónarmið komi að borðinu þegar kemur að útdeilingu á almannafé til verkefna? Hvers vegna þarf þetta ekki hjá Orkusjóði? Eru meiri líkur á því að fagleg sjónarmið komist þar að? Er minni hætta á að þau komist ekki að? Eða er það bara þannig að menn treysta því frekar þegar verið er að útdeila fjármagni til verkefna sem hafa að gera með aukna nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum? Það á að útdeila auknu fjármagni til þess að nýta innlenda endurnýjanlega orkugjafa, eins og kannski til smávirkjana eða í vindmyllur. Frábær verkefni. En við vitum að aðilar tengdir stjórnmálaflokkum eru í þessum bransa og vilja fara í þessi verkefni. Hvað gerist þegar þeir fara að sækja um í Orkusjóði? Hvað ef þeir fá úthlutað úr Orkusjóði og aðrir ekki? Litlu aðilarnir sem komu fyrir nefndina bentu á að þetta væri ekki gott fyrirkomulag, það þyrfti að ramma það betur inn. Hvernig mun það líta út þegar aðilar tengdir flokki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fara að fá úr þessum sjóði?

Ef það kemur síðar upp gagnrýni um að það séu aðrir sem ættu frekar að fá úr þessum sjóði þá er búið að skemma fyrir þessu verkefni sem er farið af stað. Ég vil því spyrja hv. framsögumann málsins, Njál Trausta Friðbertsson: Hvers vegna vildi hann ekki að nefndin gerði nákvæmlega það sama og hún gerði við Matvælasjóð, tryggði að fleiri sjónarmið kæmu að með því að fagráð yrði sett inn og tryggja faglegri sjónarmið við skipan í stjórnina? Hvers vegna vill hv. þingmaður það ekki? Vill hann það ekki sjálfur? Hann vildi það með Matvælasjóð þannig að ég trúi því að hann vilji það alveg sjálfur, en má hann það ekki? Við gerðum þetta við Matvælasjóð og af hverju? Við gerðum það á þeim forsendum sem komu fram í nefndarálitinu til þess nákvæmlega að passa upp á að fleiri sjónarmið kæmust að.

Það eru risastór sjónarmið sem þurfa að komast að þegar kemur að Orkusjóði. Það er verið að víkka út hlutverkið. Þurfa ekki víðtæk sjónarmið að koma að borðinu þegar á að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og auka nýtingu á innlendum endurnýjanlegum orkugjöfum, þegar kemur að orkuöryggi og samkeppnishæfni á sviði orkumála, orkutengdum verkefnum á grundvelli orkustefnu, nýsköpunarstefnu, byggðastefnu og stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum? Er þá bara nóg að hafa þrjá aðila sem ráðherra skipar og starfa nákvæmlega á hans forsendum og þurfa aðeins að ráðfæra sig við Orkustofnun og mögulega einhverja aðra ef tilefni er til? Er það svoleiðis sem við fáum virkilega fagleg sjónarmið við úthlutun á almannafé til allra þessara víðtæku verkefna?

Ég kaupi það ekki að ekki þurfi að tryggja fagleg og málefnaleg sjónarmið við úthlutun eins og öll nefndin samþykkti um Matvælasjóð, að það skyldi passað upp á að fleiri sjónarmið kæmust að borðinu þannig að vel væri farið með almannafé við útdeilingu á því. En hv. þingmaður og framsögumaður málsins, Njáll Trausti Friðbertsson, hefur ekki sagt okkur hvers vegna hann vill ekki að það sama gildi um Orkusjóð þegar útdeila á almannafé til þessara víðtæku og mikilvægu verkefna, hvers vegna ekki á að takmarka freistnivanda þar eins og í Matvælasjóði við úthlutun til þeirra vissulega mjög mikilvægu verkefni sem eru þar.

Hver er munurinn á þessu tvennu? Hvers vegna þarf ekki að gæta að faglegum sjónarmiðum jafn vel og minnka freistnivanda þegar kemur að Orkustofnun eins og við gerðum fyrir sjö vikum síðan við Matvælasjóð?