150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[14:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætla að byrja á því sem var nú kveikjan að því að ég kom hingað upp. Ég vil gera ráð fyrir að menn vilji helst fara vel með fé ríkissjóðs en ætli sér ekki að svindla með það eins og mér finnst stundum tónninn hér aðeins vera. Ég held hins vegar að það þurfi að vera alveg skýr viðurlög þannig að menn falli síður í þá freistni að fara að fikta eitthvað í þessum fjármunum með óeðlilegum hætti. Ég vil nú frekar gera ráð fyrir því að menn hagi sér vel.

Í ljósi þess að við sitjum í svokallaðri framtíðarnefnd, þar sem hv. þingmaður er einmitt formaður og fleiri hér í salnum sitja þar, held ég, velti ég því fyrir mér hvernig þessir takmörkuðu fjármunir til Orkusjóðs, hvort sem um orkuskipti eða nýsköpun og annað er að ræða, geta nýst okkur í því sem kemur fram í 2. gr. um hlutverk þegar rætt er um samkeppnishæfni. Ég er að reyna að átta mig á því. Nú erum við með fullt af vísindamönnum, fullt af kláru fólki, fólki sem er að reyna að skapa nýjungar, nýsköpunarverkefni sem geta aðstoðað okkur við að auka samkeppnishæfnina, hvort sem það er beinlínis í orkumálum eða tækjum og tólum tengdum orku. Ég er að velta fyrir mér: Vitum við eitthvað? Höfum við einhvern tímann sest niður og skoðað hvað þarf að setja af fjármunum í Orkusjóð til að hann geti raunverulega annað því hlutverki sem hann á að hafa, að auka samkeppnishæfni, stuðla að nýjum verkefnum í nýsköpunarstefnu og öllu því sem sjóðnum er ætlað að gera? Við vitum að 200 millj. kr. eða eitthvað slíkt eru ætlaðar í orkuskipti. Hvað ná þær langt? Hvað er hægt að gera mikið fyrir þann pening? Hv. þingmaður nefndi hér nokkrar upphæðir. Það sem mér liggur einna mest á hjarta er í raun hvernig þetta samrýmist því sem við höfum verið að gera í framtíðarnefndinni.