150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[16:06]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er sammála henni um að það er mikilvægt að hafa málefnalegu sjónarmiðin í lögunum til þess að hægt sé að treysta því að farið sé eftir þeim, að það fari ekki bara eftir geðþótta ráðherra hverju sinni hvort málefnaleg sjónarmið ráði för við skipun eða ekki. Ég sé það t.d. að í loftslagssjóði eru gerðar þær kröfur um skipun í stjórn sjóðsins að einn stjórnarmanna hafi þekkingu á loftslagsmálum o.s.frv. Gerðar eru faglegar kröfur til stjórnarinnar. Ég held að það sé mjög mikilvægt vegna þess að geðþóttaskipanir vekja tortryggni og auka hættuna á því að ekki sé staðið rétt að málum og að það sé ekki endilega að hæfasta fólkið sem velst til starfa. Það viljum við alla jafna koma í veg fyrir einmitt til þess að vel sé farið með ríkisfé. Er þá ekki rétt að skipa fólk sem hefur sérþekkingu í málaflokknum? Og væri ekki rétt að það væri bara skýrt í lögunum að velja skuli fólk með reynslu og þekkingu við hæfi? Það er ekki einu sinni það í lögunum.