150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:00]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat ekki látið hjá liggja að fara í andsvar við þessa áhugaverðu ræðu hv. þingmanns og mig langar að leyfa mér að vera aðeins á heimspekilegum nótum. Hv. þingmaður var það um tíma þegar hann fjallaði um náttúruvernd og umhverfismál, sem var sannarlega mikilvæg ábending frá Náttúrufræðistofnun Íslands og áhugaverð. Ég tek það fram, forseti, að ég er kannski ekki með svarið við þessari spurningu og ég er ekki alveg viss um að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sé með það heldur. En þetta er svo áhugaverð staða sem við erum í gagnvart loftslagsbreytingunum, hamfarahlýnuninni. Við erum að taka stórar ákvarðanir um að fasa út olíu og þar með fara að nota rafmagn meira en við höfum verið að gera, sem er náttúrlega jákvætt, og mjög mikilvægt að við gerum það, eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni. En hvernig metum við, og er yfir höfuð ástæða til að gera það, annars vegar náttúruvernd og hins vegar þær mikilvægu umhverfislegu afleiðingar sem orkuskipti hafa í för með sér? Er t.d. réttlætanlegt að virkja meira ef við notum orkuna í verkefni sem þýða minni útblástur og minni mengun? Ég ætla að leyfa mér að vera örlítið á heimspekilegum nótum af því að hv. þingmaður nefndi þetta.