150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:10]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú verð ég örlítið hræddur við að hljóma yfirlætislegur en þar sem hv. þingmaður spyr mig sérstaklega sem reyndari þingmann get ég sagt að það er alltaf áhugavert þegar nýir þingmenn koma inn, varamenn sem eru í einhvern tíma, tvær, þrjár vikur eða meira, eða nýir þingmenn sem koma inn á miðju kjörtímabili eins og hv. þingmaður. Það minnir þingmenn eins og mig á það hvernig það var að koma hingað inn fyrst, þegar maður tók fyrst eftir þessum hlutum. Raunveruleikinn er sá að þingheimur er smekkfullur af fólki og fólk verður sjálfkrafa vant þeim aðstæðum sem það býr við. Manneskjur eru rosalega góðar í því að venjast meira eða minna hvaða vitleysu sem er, eins og sagan sýnir og reyndar bara nútíminn ef litið er á heiminn. Fólk venst furðulegustu aðstæðum sem líta mjög skringilega út þegar maður sér þær fyrst. Þess vegna eru þingmenn jafnan frekar hneykslaðir á vinnubrögðunum þegar þeir koma hingað fyrst inn, en svo með tímanum áttar maður sig kannski á því að sumt er rökréttara en virtist í upphafi. En þetta er alveg viðloðandi stef og er því miður bara alveg satt.

Nú veit ég að það er ákveðið tabú, alla vega á þessu kjörtímabili, að tala um það sem er að þinginu. En þetta er eitt af því sem mér finnst vera að þinginu, hvernig umsagnarferli og gestakomur eru ekki nýttar til að bæta málin. Þarna er fullt af ónýttum tækifærum. Undirliggjandi ástæða er, held ég, sú að Alþingi þróast í gegnum tímann út frá átökum. Þetta er átakastofnun, við erum komin hingað til þess að takast á, ekki til að stefna sameiginlega að einhverju markmiði. Einræði virkar vel til þess en í lýðræðissamfélagi erum við komin hingað til að vera ósammála og stundum til að þvælast beinlínis hvert fyrir áformum annars. Það leiðir af sér, að mínu mati, umhverfi þar sem málsmeðferð og ferli þróast í átt að því að málsmeðferðin stjórnast af ómálefnalegri ástæðum en ella væri, nefnilega: Hvaðan kemur málið? Hver lagði það fram? (Forseti hringir.) Er það meiri hluti eða minni hluti? Er það þessi flokkur eða hinn? (Forseti hringir.)

Ég gæti talað lengi um hugsanlegar úrbætur á þessu en ég verð að ljúka ræðu minni núna vegna tímaskorts.