150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[17:12]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að þetta finnst mér mjög áhugavert umræðuefni og finnst raunar, sem nýjum þingmanni, með miklum ólíkindum að það sé ekki rætt meira hér innan húss. Í framhaldi af þeirri fyrirspurn sem ég varpaði til hv. þingmanns rétt í þessu þá hefur mér líka fundist svo sláandi að upplifa að það sé mikið tregðulögmál að breyta tiltölulega einföldum og augljósum hlutum þegar minni hlutinn flaggar þeim. Kannski eru það ekki stórar pólitískar fréttir að svo sé. Annars vegar er þetta tregðulögmál til breytinga, ef við kippum stjórnarandstöðunni út fyrir sviga, og hvað þingið virðist vera smeykt við breytingar og hins vegar það að hér eru að eiga sér stað á lokametrunum ótrúlega glannalegar breytingar þar sem er algjörlega ófyrirséð hverjar lagalegu afleiðingarnar verða, undir þeim formerkjum að þetta séu litlar tæknilegar breytingar, eins og lög hafi ekki efnislegt inntak. (Forseti hringir.) Það vantar allan millileik. Ég hefði áhuga á að heyra sjónarmið hv. þingmanns um þetta.