150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:46]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ræða hv. þm. Björns Leví Gunnarssonar var reyndar orðin svo áhugaverð undir lokin að mig langar satt best að segja mest til að eiga við hann spjall um stafrænar smiðjur, nýsköpun og kjötrækt. Það sem vakti kannski helst athygli mína var þetta með fiskinn, að við þyrftum ekki lengur að sækja sjóinn. Það væri sannarlega að mörgu leyti falleg framtíðarsýn að geta eingöngu átt dýr sem gæludýr, sem félaga, eins og margir gæludýraeigendur líta á það.

Fyrr í ræðu sinni fjallaði hv. þingmaður á mjög áhugaverðan hátt um það að meta fjárhagslegar afleiðingar frumvarpa. Mjög oft eru niðurstöður slík mats nefnilega neikvæðar. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni er líka stundum ábati og stundum eru afleiðingar af einhverjum breytingum sem verið er að gera, hreinlega jákvæðar fyrir ríkissjóð. Hér á ég t.d. við styrki til nýsköpunar, styrki til uppbyggingar hitaveitu, eins og við ræddum fyrr í dag, og annað slíkt. Ég velti fyrir mér og langar að spyrja hv. þingmann: Hvernig metur maður það? Erum við að tala um fjölda starfa? Erum við að tala um greiddan skatt eða, eins og gæti verið í þessu tilfelli, lækkun greiðslna, sem sagt lækkun annarra styrkja sem gætu haft áhrif?