150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[19:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir þessa beiðni af því að þetta er mjög mikilvæg spurning. Hæstv. ráðherra getur auðveldlega sagt: Að sjálfsögðu mun ég skipa faglega. Og það er svo sem ekki erfitt hvað einn ráðherra varðar. En hvað ef núverandi fjármálaráðherra yrði í hennar sporum einhvern tímann á næstu árum — vonandi ekki samt — og skipaði í stöður en svo kæmi í ljós að viðkomandi ráðherra hefði brotið jafnréttislög við skipun, eða þá fyrrverandi dómsmálaráðherra, eða jafnvel bara að núverandi menntamálaráðherra yrði allt í einu komin í þá stöðu og hugsaði þá: Ég þarf ekki að taka tillit til faglegra sjónarmiða. Ég get bara skipað vini mína.

Þetta skiptir máli, sérstaklega í þeim aðstæðum sem við erum núna, að ráðherra fjalli aðeins um ástæður sínar fyrir því að hafa ekki fagleg viðmið þarna, því að sporin hræða.