150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:17]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór svo hraustlega fram yfir ræðutímann að hann hafði ekki tíma til að koma með spurninguna en ég ætla að fá að fullgera þá hugleiðingar mínar við fyrra andsvarið. Í 8. gr. í frumvarpinu er þessi reglugerðarheimild og þetta er ekkert nýtt. Mér þykir, eins og ég hef komið inn á, okkur alla jafna of tamt að nota reglugerðarheimildir eiginlega þannig að ef eitthvað stendur út á þá dúndrum við því inn með reglugerð af því að við þurfum þá ekki að taka einhverja afstöðu til þess. En þetta er ansi víðtækt og kveður á um eitthvað sem ráðherra skal setja í reglugerð, þ.e. nánari fyrirmæli um skilyrði fyrir framlögum úr sjóðnum og undirbúning úthlutunar og lánveitingar og útlánakjör og vexti og eftirlit með framkvæmdum o.s.frv. Þetta skal ráðherra gera skv. 8. gr. Síðan getur stjórn Orkusjóðs sett nánari reglur og skilyrði ef henni sýnist svo og síðan í þriðja lagi er ráðherra heimilt að setja enn nánari ákvæði. Þetta er ansi víðtækt, ansi stórt og mikið. Kannski er það bara af því að þetta er stutt og laggott um gott mál sem þetta sker svona í augu. Ég held ekki að þetta sé verra en margt annað sem við höfum gert (Forseti hringir.) en þetta er bara svo sýnilegt hérna. Þess vegna hefði manni þótt svo gott að sjá tækifærið gripið hér til að vinna þetta öðruvísi af því að þetta er svo gott mál.