150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[20:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að nýta þessar tvær mínútur vel. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir framsöguna. Við erum einmitt að ræða um stjórn þessa sjóðs, okkur verður mörgum tíðrætt um hana og mikilvægi þess að hafa faglega þekkingu að grundvelli þegar kemur að skipun í stjórnina. Meiri hlutinn hefur sagt í nefndaráliti sínu að svar hans við þeirri gagnrýni að ekki séu gerðar neinar hæfniskröfur um skipan í þessa stjórn sé það að skilningur hans sé sá að stjórninni sé skylt að leita umsagnar Orkustofnunar eða annarra sérfræðinga eftir því sem við á, eins og stendur í nefndaráliti meiri hlutans.

Þegar ég les það finnst mér svolítið eins og verið sé að búa til mjög pólitíska stjórn sem rétt eins og ráðherrar, þegar þeir leggja fram frumvörp, eða þingmenn, þegar við förum í gegnum þingið með tillögur eða frumvörp, leiti umsagna hjá fagaðilum um það sem ætlunin er að gera. Það gerir það að verkum að mér finnst liggja í augum uppi að til standi að hafa þetta pólitískar skipanir og að þessir pólitísku aðilar þurfi að leita ráðgjafar hjá fagaðilum. Í staðinn fyrir að hafa þarna fagaðila, sem geta vissulega líka leitað ráðgjafar, að sjálfsögðu á maður að leita ráða, eiga pólitísku (Forseti hringir.) aðilarnir að leita ráða hjá fagaðilum. Hefði þetta ekki verið auðveldara á hinn veginn?