150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[21:20]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er mjög athyglisvert atriði sem hv. þingmaður vekur athygli á hér. Nú háttar þannig til að ég sit ekki í hv. atvinnuveganefnd, sem hefur haft þetta frumvarp til skoðunar, og ég hafði satt að segja ekki áttað mig á því að ekki væru settar nánari reglur eða fyrirmæli um það hvernig verkefni eru valin. Í 4. gr., um fjármögnun verkefna, stendur:

„Stjórn Orkusjóðs gerir tillögur til ráðherra um lánveitingar og framlög úr Orkusjóði í samræmi við áherslur og stefnumótun stjórnvalda.“

Þetta eru sem sagt styrkir. Við lesturinn kemur ekkert fram um það annað en að setja eigi reglugerð um undirbúning úthlutunar og þess háttar. En það vantar algerlega að þetta eigi að byggjast á samkeppni, byggjast á mati á því hvaða verkefni eru talin best og hvaða skilyrði eru sett fyrir því að verkefni geti fengið styrk. Nú veit ég ekki hvort hæstv. ráðherra hyggst reyna að búa þessa reglugerð þannig úr garði að þetta verði allt skýrt þar. En ég tek undir það með hv. þingmanni að mjög æskilegt væri, og jafnvel nauðsynlegt, að skýrt væri kveðið á um að þetta væri gert á samkeppnisgrundvelli þannig að gert væri upp á milli umsókna með algerlega hlutlægum hætti á forsendum gæða verkefnanna sem sótt er um styrk fyrir.