150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

Orkusjóður.

639. mál
[22:19]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna af því að mér fannst áhugavert að lesa umsögn frá Ríkisendurskoðun. Ég ætla að byrja á að segja að ég deili skoðun þingmannsins á þeirri niðurstöðu, eða kannski skorti á niðurstöðu. Þegar maður fer yfir þessa umsögn og þær breytingar sem urðu í kjölfarið þá verð ég að viðurkenna að ég er ekki fyllilega áttuð á því hver niðurstaðan varð. Þetta er eitthvað sem mér hefði fundist mega spegla betur í nefndarálitinu, hvaða sjónarmið eru til grundvallar og hvers vegna verið er að fara þá leið sem er verið að fara. Greinin sjálf í frumvarpinu segir okkur náttúrlega óskaplega lítið. Af því að spurningin var um þetta verklag og verkferli við lagasetninguna þá finnst mér það einmitt kannski alltaf standa út úr, þetta ræddum við hv. þingmaður líka áður, að mál virðast ekki fá umfjöllun hér innan húss í samræmi við mikilvægi og þær breytingar sem lagðar eru til. Í þessu tilviki er ríkisendurskoðun að flagga ákveðnu sjónarmiði. Þetta kemur líka fram í umsögn annars aðila, sem er Valorka, þar sem fjallað er um tekjur Orkusjóðs. Þar er bent á ákveðin sjónarmið en það er varðandi fjársvelti. En þetta finnst mér einhvern veginn koma í sama stað niður og annað hér. Og aftur: Ég er hlynnt frumvarpinu og því sem hér er verið að gera, en það stendur einhvern veginn alltaf út af, þegar maður rýnir textann sjálfan, sem ætti að vera það sem er í forgrunni, að hér er svo margt ósagt.