150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[23:13]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sem tekið hafa einhverjum breytingum frá þeim tíma. Við höfum líka hlýtt á greinargott nefndarálit hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés, sem rammar vel inn þann anda og þá vinnu sem fram fór í nefndinni sem var með ágætum. Markmið þessara breytinga á lögunum er að framfylgja stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi það að gera átak í að einfalda regluverk í þágu atvinnulífs og almennings, eins og það heitir, samhliða því að leggja áherslu á að stjórnsýslan sé skilvirk og réttlát. Við þekkjum yfirlýsingar af þessu tagi. Þær hafa reynst misjafnlega og ekki alltaf verið sem skyldi og ekki endilega í þágu einföldunar eða í þágu almennings. Þær hafa jafnvel snúist upp í andhverfu sína. Þetta var sömuleiðis rætt í nefndinni og menn voru sammála um að nauðsynlegt væri að stíga heldur varlega til jarðar.

Í frumvarpinu var í upphafi stefnt að því að fella út tugi fyrirtækjaflokka sem yrðu hvorki starfsleyfisgildir né skráningarskyldir, en heilbrigðiseftirliti í sveitarfélögunum var engu að síður ætlað að hafa tilfallandi eftirlit með umræddri starfsemi sem þessu tengdist. Alls eru 187 flokkar starfsemi tilgreindir í viðaukum IV og V í lögunum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sem heilbrigðisnefndirnar hafa gefið út starfsleyfi fyrir. Ekki verður lengur gerð krafa um útgáfu starfsleyfis fyrir 41 flokk starfsemi. Gerðar eru breytingar á heitum á ýmsum flokkum og þeir sameinaðir í nýja flokka en þær breytingar hafa áhrif á 53 flokka starfsemi.

Þarna er að finna veigamikla starfsemi á borð við snyrtistofur, stóra rafmagnsspenna, samkomusali, hestaleigur, kvikmyndahús, kjötreykingu, reiðhallir og verkfræðiaðstöðu fyrirtækja. Það má ganga að því sem vísu að talsverður fjöldi mála komi upp sem snertir þessa starfsemi. Það fer eftir svæðum, t.d. ef kjötreyking er sett upp í íbúðabyggð eða olíuleki kemur frá spennistöðvum. En heilbrigðiseftirlitin hafa fengið kvartanir á borð við þær sem hér um ræðir.

Í kjölfar lagabreytinganna hefði orðið afar snúið fyrir heilbrigðiseftirlitin að hafa aðkomu að slíkum málum þar sem ekki er að finna neina leiðsögn í regluverkinu eftir þær breytingar sem boðaðar höfðu verið í frumvarpinu. Nefndin var sammála um þá meginforsendu að best færi á því að eftirlitið færi fram sem næst starfsemi hverju sinni, en að hlutverk stofnana ríkisins ætti aftur á móti vera það að huga að samræmingu og veita aðstoð ef með þyrfti, og er það áréttað í nefndaráliti.

Það er mat nefndarinnar að nauðsyn beri til að fram fari heildarendurskoðun á lögunum eins fljótt og hægt er, og varhugavert sé að klippa á og skera af lagatextanum og hlutverkum einstakra þátta í stjórnkerfinu nema að undangenginni vandaðri vinnu og miklu samráði við hlutaðeigandi, og jafnvel að gera um þetta áhættugreiningu. Það gerði nefndin sér ljóst þegar farið var að lesa yfir lögin, kynna sér þau og greina hversu flókin og torskilin þau væru í rauninni. Heilbrigðiseftirlitin voru alveg skýr í viðtölum við okkur og kvörtuðu jafnvel undan því að lítið eða takmarkað samráð hefði verið haft við nefndirnar í vinnunni við frumvarpið og ekki heldur við þau fyrirtæki sem breytingarnar varða. Það má telja víst að ýmislegt uppbyggilegt gæti komið út úr slíkri vinnu sem myndi bæta þetta mál. Umhverfis- og samgöngunefnd vill í þessum efnum fara með löndum, eins og framsögumaður nefndi, skoða allar lagaumgjörðina í þaula. Hún gerir engu að síður breytingar á lögunum en varar við því og leggur til að lögin verða endurskoðuð en vill ekki að gripið verði inn í einstök atriði sem við höfum ekki fulla stjórn á hvaða afleiðingar hafi.

Ég stend að þessu nefndaráliti með fyrirvara sem gengur fyrst og fremst út á brýningu um heildarendurskoðun á þessum lögum. Þá finnst mér líka umhugsunarefni og nauðsynlegt að tryggja að inni séu áfram skýr ákvæði um aðkomu yfirvalda að einum þætti af þessum 187 eða jafnvel fleirum, aðkomu yfirvalda að vinnubúðum. Það vakti athygli mína, af því að ég bý nú í landsbyggðarkjördæmi þar sem þessi mál hafa komið við sögu, eins og við þekkjum raunar úr fréttum. Það varðar aðbúnað verkafólks. Málið hefur skánað mjög en áður en breytingafrumvarpið var lagt fram átti að fella niður aðkomu að öllum vinnubúðum, eftir því sem best varð séð. Við þekkjum öll umræðuna úr fjölmiðlum um aðbúnað verkafólks og hann hefur satt best að segja ekki verið landsmönnum til mikils sóma. Rýmum sem erlendu verkafólki hefur verið holað niður í hefur oft verið verulega áfátt, svo ekki sé meira sagt. Það má líka nefna íverustaði farandverkafólks í sláturhúsum.

Þessi atriði verður að fella í vandaðar skorður þannig að þau verði aðgengileg fyrir heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna að vinna eftir og að því lýtur þessi litli fyrirvari minn líka.

En að öðru leyti þakka ég fyrir vinnunni í nefndinni. Mér fannst skynsamlega á þessu tekið og niðurstaðan vera varfærin og í þágu þessarar þjónustu þar sem svo mjög hefur mætt á, fyrst og fremst sveitarfélögum og heilbrigðisnefndum þeirra. Þar er mikill áhugi fyrir að þetta eigi sér sess áfram. Og eins og fram kom í nefndaráliti og hjá framsögumanni ætti þetta kannski heima í nærsamfélaginu þar sem staðarþekking er betri, en umsjá og ráðgjöf ætti heima hjá opinberri stofnun ríkisins.