150. löggjafarþing — 127. fundur,  25. júní 2020.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

436. mál
[23:24]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt, ég hefði átt að geta um það að þetta varð að umfjöllunarefni og það var eitt af því sem tekið var tillit til. Ég undirstrika það bara að það var hin skynsamlegasta niðurstaða sem fékkst í þetta efni og í staðinn fyrir að afgreiða málið í hálfgerðri blindni var þessi niðurstaða fengin. Heilbrigðisnefndirnar í sveitarfélögunum gegna miklu hlutverki. Ég tel að þær eigi að fá að gera það áfram. Það er mín skoðun að við eigum að virkja fagkunnáttu í sveitarfélögunum að þessu leyti. Hin minni sveitarfélög hafa sameinast um heilbrigðisnefndir og það er ágætt. Við eigum að ýta undir að sveitarfélög í heild sinni sameinist þótt þeim fækki og verði öflugri stjórnsýslueiningar. En á þetta var drepið í gestakomum og sérstaklega hjá fulltrúum heilbrigðisnefnda að þau legðu á það áherslu að nefndirnar fengju sitt góða skilgreinda hlutverk. Hins vegar megum við auðvitað hafa það í huga og það er nauðsynlegt að Umhverfisstofnun og opinberar stjórnsýslueiningar eiga að hafa sitt rými og sitt skilgreinda hlutverk og við eigum, eins og fram kom í nefndarálitinu og í umræðunni, að nýta okkur hina nýju tækni, rafræna tækni, eins og mögulegt er. Það er hægt að gera í ríkari mæli en við gerum kannski í dag.