150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[11:29]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að grípa niður í nefndarálitið, með leyfi forseta:

„Framlög til vegagerðar hafa ekki dugað til að mæta aukinni þörf til uppbyggingar vegakerfisins. Ljóst er að ýmis brýn verkefni munu ekki komast til framkvæmda á næstu einum til tveimur áratugum nema til komi aðrar fjármögnunaraðferðir.“

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort þetta sé í raun svo ljóst þó að ríkið hafi ekki lagt meira til vegagerðar á síðustu árum en raun ber vitni. Það er ekki náttúrulögmál heldur ákvörðun sem er tekin í þessum sal. Ef við ákveðum, eins og í þessu nefndaráliti, að þau framlög muni ekki aukast þá er að sjálfsögðu ljóst að það þarf að leita einhverra annarra leiða. En við getum allt eins ákveðið að það sé ekki leiðin sem við viljum heldur viljum við einfaldlega að ríkið leggi meira til vegaframkvæmda. Hvers vegna gerum við það ekki?