150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:09]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir þessar hugleiðingar, eigum við ekki að orða það þannig? Ég velti fyrir mér af þessu tilefni, og held áfram með það sem ég var að segja áðan, að við teljum nú um stundir að það geti verið ódýrara fyrir skattborgara landsins að ríkið taki lán fyrir framkvæmdunum vegna þess að lán bjóðast nú á mjög góðum kjörum. Í nefndaráliti meiri hlutans, sem ég fann ekki á augabragði, kemur raunveruleg ástæða reyndar fram, og mér finnst sú ástæða ekki nógu öflug. Af hverju er verið að veita einkaaðilum þessi verkefni, á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir? Það gefur augaleið að þeir þurfa að taka lán fyrir því á hærri vöxtum. Þarna er einhver mismunur sem ber vexti í 30 ár. Þetta eru stórar upphæðir þegar allt er talið alla leið þannig að þetta verði dýrara fyrir gjaldendur (Gripið fram í.) og ríkið í einhverjum tilvikum. Við áttum okkur ekki á þessu. Ástæðan var sögð vera sú að þetta myndi ýta undir nýsköpun. Já. Þeir fyndu ódýrari lausnir. Já. En það er um svo mikla fjármuni að ræða að ég sé ekki að það vegi upp á móti. Ríkið tekur 5 milljarða að láni með 1% vöxtum og býður síðan út brúargerð. Svo kemur einkaaðilinn og gerir brúna. Ríkið gerir að sjálfsögðu ákveðnar kröfur um það hvernig brúin á að vera, þannig að það breytist ekki neitt. Ég óttast að þetta verði dýrara fyrir notendur og sérstaklega núna þegar vextir eru svona lágir.