150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[12:50]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eins og fram kom hjá þingmanninum eru þetta gjörólík verkefni og það er ekki hlutverk Vegagerðarinnar að hafa sérstaka skoðun á því hvaða leið er farin. Hins vegar snýst það sem ég kom inn á um þá kosti sem Vegagerðin sér við þessa aðferðafræði. Það fannst mér koma mjög skýrt fram og einmitt vegna þess hversu ólík verkefnin eru hefur Vegagerðin dregið fram þá kosti sem því fylgja að fá ákveðna útvíkkun á þekkingu með samstarfi um svona ólík verkefni.

Síðan langaði mig að koma inn á annað sem hefur komið fram í umræðunni. Það er að í verkefnum af þessu tagi í Noregi setja stjórnvöld sér það markmið að þó að fjármögnun geti hugsanlega orðið dýrari, eins og réttilega hefur komið fram hér, sé stefnt að því að verkefnin í heild sinni séu 20% ódýrari en verkefni sem ríkisvaldið hefur alfarið á sinni könnu í framkvæmd og í flestum tilfellum næst það markmið. Það er það sem við erum að stefna að hérna.

Síðan langaði mig aðeins að koma inn á umferðarmælingarnar. Auðvitað eigum við umferðarmælingar á öllum þessum leiðum og þær sjáum við á vef Vegagerðarinnar. Hver sem er getur flett þeim upp. Hins vegar, þegar verið er að gjörbreyta einhverri leið eins og leiðinni um Öxi t.d. og jafnvel má segja það sama um Hornafjarðarfljót, er ekkert hægt að draga of miklar ályktanir af umferðinni allt árið út frá þeim samgöngumannvirkjum sem eru nú til staðar vegna þess að umferðin verður allt annars eðlis eftir að ný mannvirki (Forseti hringir.) verða komin til. Getur þingmaðurinn verið sammála mér um það?