150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

framhald þingstarfa.

[13:51]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það er augljóst að það er komin dálítil þreyta í mannskapinn. Ég held að það liggi alveg fyrir. (Gripið fram í: Aldrei verið hressari.) En ég held að það sé svo verkefni okkar hér að reyna að ljúka þessu þingi þangað til við hittumst aftur í sumar, þ.e. í ágúst. Það er jú hið undirritaða samkomulag, sem upphafsmaður þessarar fundarstjórnarlotu nefndi, að koma saman þá. Kannski þurfum við að hafa það lengra ef okkur tekst ekki að ná saman núna, sem ég vona sannarlega að verði ekki. Það er samt sem áður þannig, og annað má aldrei verða, og ég hef verið beggja vegna borðsins, þ.e. í minni hluta og meiri hluta, að þegar kemur að þingmannamálum þá hafa ævinlega og alltaf verið uppi á borðinu þær þrjár meginaðferðir sem hv. þingflokksformaður Sjálfstæðismanna nefndi hér. Þannig hefur það ævinlega verið. Við höfum sjaldan tekið út mál sem hafa verið í gríðarlegum ágreiningi. Þess vegna kemur það á óvart þegar lýðræðisflokkur, eða flokkur sem kennir sig við lýðræði, segir: Við tökum eitt þessara þriggja atriða úr sambandi. (Forseti hringir.) Og af því að hér var vitnað í samkomulag sem gert var í desember þá stóð það akkúrat í því samkomulagi; (Forseti hringir.) samþykki, synjun, vísun.