150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[15:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er aðeins að reyna að útskýra þetta. Verkefni þrjú er t.d. nokkurn veginn næst á dagskrá. Það er ekki verkefni sem ætti að taka út úr þeirri sanngjörnu röðun sem við höfum sett upp í kringum samgönguáætlun. Það er sett í samvinnuverkefni, en það er í rauninni verkefni sem hefði átt að vera komið á lista yfir almenn samgönguverkefni. Það þýðir að einhvers staðar neðar á lista er verkefni sem fer á samgönguáætlun. Þá er alveg spurning hver sanngirnisrökin eru. Af hverju er fólk á því svæði sem fer í samvinnuverkefnið að borga umfram það verkefni sem kemur inn í samgönguáætlun í staðinn? Ég skil það hins vegar mjög vel, ef farið er þó nokkuð langt niður listann, ef þetta er verkefni sem kemur kannski ekki á næstu tíu árum eða eitthvað svoleiðis. Þá er samt ákveðinn ábati af þeirri framkvæmd, bara minni ábati en af þeim sem eru efst á lista, að sjálfsögðu. Þegar slíkar aðstæður eru sjáum við í rauninni glataðan ávinning á þessum tíu árum. Ef farið væri strax í verkefnið væri það ávinningurinn á þessum tíu árum sem við myndum fá um leið og framkvæmdum lyki. Þar erum við komin með mun á milli glataðs árangurs og aukakostnaðar við að fara í PPP-framkvæmd upp á 20–30% að meðaltali. Ef ávinningurinn er meiri en aukakostnaðurinn við að fara í samvinnuframkvæmd þá græða báðir aðilar. Samfélagið græðir á að þurfa ekki að bíða, tekur á sig biðkostnaðinn þó að það borgi hærra verð fyrir. Í slíkum aðstæðum ættum við (Forseti hringir.) að skoða samvinnuverkefni en ekki, eins og ráðuneytið orðar það: (Forseti hringir.) Þetta eru heppileg verkefni.