150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. velfn. (Halla Signý Kristjánsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu við frumvarp til laga um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða frá hv. velferðarnefnd. Nefndin hefur fjallað um málið, fengið til sín gesti og farið yfir þær umsagnir sem bárust.

Með frumvarpinu er lagt til að sett verði heildarlög um félagslegan viðbótarstuðning við aldraða. Lagt er til að komið verði á fót nýju kerfi félagslegs stuðnings við aldraða sem búsettir eru hér á landi og eiga engin eða takmörkuð lífeyrisréttindi í almannatryggingum. Gert er ráð fyrir því að hámark mánaðarlegra greiðslna til einstaklings samkvæmt lögunum geti numið 90% af fjárhæð fulls lífeyris samkvæmt lögum um almannatryggingar, auk 90% af mánaðarlegri fjárhæð fullrar heimilisuppbótar samkvæmt lögum um félagslega aðstoð þegar það á við.

Hér er kafli um mat á kostnaði ríkissjóðs við lögfestingu. Þar segir að ljóst sé af ákvæðum frumvarpsins að lögfestingu þess fylgi kostnaður fyrir ríkissjóð. Við framlagningu málsins fylgdi því ekki kostnaðarmat líkt og skylt er samkvæmt 66. gr. laga um opinber fjármál. Óskað var eftir því við félagsmálaráðuneytið að nefndinni yrði sent kostnaðarmat ráðuneytisins vegna málsins. Nefndinni barst mat ráðuneytisins á áhrifum lagasetningar 30. apríl 2020, þar sem fram kemur greining og mat á fjárhagslegum áhrifaþáttum fyrir ríkið.

Réttur til viðbótarstuðnings samkvæmt frumvarpinu getur stofnast bæði hjá einstaklingum sem eru á skrá hjá Tryggingastofnun ríkisins og eiga minni rétt en sem svarar hámarki félagslegs viðbótarstuðnings og hjá einstaklingum sem eiga engan rétt samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Í kostnaðarmati ráðuneytisins kemur fram að stuðningurinn muni ná til um 400 ellilífeyrisþega, miðað við mat Tryggingastofnunar frá nóvember 2019 og muni kostnaður við stuðning til þeirra nema um 461 millj. kr. á ári miðað við verðlag ársins 2019. Ef miðað er við 3,5% hækkun greiðslna á milli ára væri árlegur kostnaður árið 2020 um 477 millj. kr.

Áætlað er að kostnaður vegna þeirra sem ekki eiga réttindi í almannatryggingakerfinu en hafa fengið framfærslustyrk frá sveitarfélagi sé minni háttar. Gert er ráð fyrir því að þeir sem uppfylla skilyrði fyrir félagslegum viðbótarstuðningi hafi að jafnaði búið hér á landi í fjögur ár og eigi því að minnsta kosti einhver réttindi til ellilífeyris. Í mati ráðuneytisins er gert ráð fyrir því að um þrír einstaklingar geti átt fullan rétt til félagslegs viðbótarstuðnings sem getur numið um 3,5 millj. kr. á ári, fyrir hvern einstakling.

Þá kemur einnig fram í kostnaðarmati ráðuneytisins að áætlaður kostnaður við innleiðingu nýs bótaflokks hjá Tryggingastofnun sé um 30 millj. kr. á árinu 2020, sem verði einsskiptiskostnaður, en auk þess verði árlegur kostnaður stofnunarinnar um 40 millj. kr.

Miðað er við að árlegur kostnaður vegna frumvarpsins geti orðið allt að 530 millj. kr. Þar sem gert er ráð fyrir því að lögin taki gildi 1. júlí 2020 gerir ráðuneytið ráð fyrir því að kostnaður yfirstandandi árs verði um 280 millj. kr. auk um 30 millj. kr. innleiðingarkostnaðar.

Hér er svo talað um afmörkun í gildissviði frumvarpsins og ótímabundið dvalarleyfi og rétt EES- og EFTA-borgara til viðbótarstuðnings. Í 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins segir að lögin taki til einstaklinga sem eru 67 ára og eldri, hafa fasta búsetu og skráð lögheimili hér á landi og dvelja varanlega á Íslandi. Í 2. mgr. 2. gr. segir að ef um erlendan ríkisborgara er að ræða sé það skilyrði að hann hafi ótímabundið dvalarleyfi hér á landi samkvæmt ákvæðum laga um útlendinga, nr. 80/2016.

Í umsögn Útlendingastofnunar um málið er bent á að af skilyrði frumvarpsins um ótímabundið dvalarleyfi megi ætla að ríkisborgarar EFTA-ríkjanna og ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins sem dvelji ótímabundið hér á landi eigi ekki rétt til félagslegs viðbótarstuðnings. Útlendingar sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu eru undanskildir kröfum útlendingalaga um ótímabundið dvalarleyfi. Réttur EES- og EFTA-borgara til ótímabundinnar dvalar er því ekki bundinn því skilyrði að viðkomandi hafi fengið ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt lögum um útlendinga.

Í minnisblaði sem nefndinni barst frá ráðuneytinu 14. apríl 2020 segir að allir sem geti sest að hér á landi samkvæmt lögum um útlendinga geti fallið undir frumvarpið. Af því má ráða að ætlunin sé að EES- og EFTA-borgarar geti notið sama réttar og aðrir erlendir ríkisborgarar til félagslegs viðbótarstuðnings samkvæmt frumvarpinu.

Nefndin leggur því til breytingu þess efnis að viðkomandi teljist uppfylla skilyrði 2. mgr. 2. gr. hafi hann ótímabundið dvalarleyfi eða rétt til ótímabundinnar dvalar, samkvæmt 87. eða 88. gr. laga um útlendinga samanber 91. gr. laganna. Með þessu eiga ríkisborgarar Norðurlandanna, þar með talið Álandseyja, Færeyja og Grænlands, einnig rétt á greiðslum samkvæmt frumvarpinu enda mega þeir dveljast hér á landi án dvalarleyfis.

Síðan segir hér um dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis að í umsögn Útlendingastofnunar sé bent á að eitt skilyrða þess að fá útgefið ótímabundið dvalarleyfi sé að framfærsla viðkomandi sé trygg. Því felist ákveðin þversögn í orðalagi ákvæðis 3. mgr. um að heimilt sé að veita undanþágu frá skilyrði 2. mgr. 2. gr. hafi erlendur ríkisborgari dvalarleyfi hér á landi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, enda hafi hann verið búsettur hér á landi í a.m.k. tvö ár þegar sótt er um félagslegan viðbótarstuðning og sérstakar aðstæður eru fyrir hendi.

Nefndin bendir á að með ákvæðinu er aðeins vísað til þeirra tegunda dvalarleyfa sem geta verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis, en ekki til þess að viðkomandi uppfylli öll skilyrði ótímabundins dvalarleyfis þegar hann sækir um viðbótarstuðning. Þannig sé Tryggingastofnun heimilt að líta til sanngirnissjónarmiða við ákvörðun um að veita undanþágu á grundvelli 3. mgr. og getur þetta t.d. átt við þegar framfærsla hefur fallið niður, svo sem vegna andláts þess sem hana ábyrgist, eða ef viðkomandi þarf að hætta störfum sökum varanlegrar örorku áður en hann fær ótímabundið dvalarleyfi.

Svo er fjallað um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar en í 4. mgr. 2. gr. segir að fjölskyldumeðlimir sem hafa fengið dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar falli ekki undir lögin hafi sá aðili sem óskað var sameiningar við hér á landi ábyrgst framfærslu þeirra. Sama á við hafi annar aðili sem deilir heimili með viðkomandi ábyrgst framfærslu hans. Nefndin bendir á að dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga er ekki ótímabundið dvalarleyfi. Einstaklingar sem dvelja hér á landi vegna dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar uppfylla því ekki skilyrði 2. mgr. 2. gr. nema viðkomandi hafi í kjölfarið fengið ótímabundið dvalarleyfi samkvæmt 58. gr. laganna. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að tiltekins óskýrleika kynni að gæta varðandi gildissvið 4. mgr. að þessu leyti. Annars vegar mætti skilja ákvæðið þannig að þeir sem dvelja hér á landi á grundvelli dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar ættu ekki rétt á viðbótarstuðningi, en í því fælist ekki efnislegt skilyrði sem gengi lengra en ákvæði 2. mgr. Hins vegar mætti skilja ákvæðið þannig að hafi dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar orðið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis sem viðkomandi hafi fengið gæti hann ekki átt rétt á félagslegum viðbótarstuðningi samkvæmt frumvarpinu.

Að höfðu samráði við ráðuneytið telur nefndin réttara að hinn fyrri skilningur verði lagður til grundvallar, þ.e. að þeir sem eru á dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar geti ekki átt rétt til félagslegs viðbótarstuðnings. Í því sambandi bendir nefndin á að það er almennt skilyrði þess að viðkomandi fái ótímabundið dvalarleyfi að framfærsla hans hafi verið trygg á dvalartíma hans og að hann hafi getað og geti áfram framfleytt sér.

Í ljósi þess að ákvæði frumvarpsins taka almennt ekki til þeirra sem eru með tímabundið dvalarleyfi telur nefndin 4. mgr. 2. gr. ekki hafa neina sjálfstæða þýðingu, umfram það sem er áréttað í 2. mgr. 2. gr. Til þess að fyrirbyggja þann misskilning sem gerð hefur verið grein fyrir að framan leggur nefndin til að 4. mgr. 2. gr. falli brott.

Þá er talað um endurkröfur. Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild Tryggingastofnunar til að endurkrefja greiðsluþega um ofgreidda fjárhæð hafi greiðsla átt sér stað án þess að skilyrðum laganna væri fullnægt og í 5. mgr. 13. gr. er kveðið á um endurgreiðslu ofgreiddrar fjárhæðar vegna vísvitandi rangra, villandi eða ófullnægjandi upplýsinga. Í umsögn Skattsins eru reifaðar áhyggjur af því að fyrirkomulag greiðslna samkvæmt frumvarpinu, þar með talin þau tekjuviðmið sem lögð eru til grundvallar, kunni að valda því að talsvert verði af endurútreikningi bóta. Bendir Skatturinn í því sambandi á að ekki eru allar innlendar tekjur staðgreiðsluskyldar og slíkar tekjur liggja ekki fyrir fyrr en að liðnu tekjuári. Í því sambandi bendir nefndin á að ekki er gert ráð fyrir sambærilegu fyrirkomulagi og er í lögum um almannatryggingar, þar sem greiddar bætur byggjast á tekjuáætlun hvers árs og eru endurreiknaðar þegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir. Þess í stað er lagt til að viðkomandi greiðsluþega beri að tilkynna um allar breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á ákvörðun um stuðning og greiðslu hans. Þannig er gert ráð fyrir fyrirkomulagi sem byggist á upplýsingagjöf greiðsluþega og endurkröfuheimildum Tryggingastofnunar, ef ofgreitt er. Mun því ekki koma til endurútreiknings bóta með sama hætti og lög um almannatryggingar mæla fyrir um.

Þá um upplýsingaskyldu annarra aðila. Í 12. gr. frumvarpsins segir að þær stofnanir sem þar eru tilgreindar skuli láta Tryggingastofnun í té upplýsingar með rafrænum hætti eða á annan hátt að því marki sem slíkar upplýsingar eru nauðsynlegar til að unnt sé að framfylgja lögunum. Við umfjöllun nefndarinnar var bent á að samkvæmt lögum um almannatryggingar hefur Tryggingastofnun fræðsluskyldu gagnvart skjólstæðingum sínum um fyrirhugaða vinnslu persónuupplýsinga. Nefndin leggur til breytingu þess efnis að við 12. gr. bætist sams konar fræðsluskylda Tryggingastofnunar um fyrirhugaða upplýsingaöflun.

Með frumvarpinu er lagt til að komið verði á nýju kerfi félagslegrar aðstoðar sem Tryggingastofnun verði falið að annast. Ljóst er að þörf verði á talsverðri undirbúningsvinnu áður en lögin geti komið til framkvæmda, en í umsögn Tryggingastofnunar segir að m.a. þurfi að innleiða nýjan greiðsluflokk og ferla í kerfi stofnunarinnar. Í því sambandi var bent á að nær ómögulegt væri fyrir stofnunina að ljúka nauðsynlegri undirbúningsvinnu fyrir gildistöku laganna. Leggur nefndin því til breytingu á 19. gr. frumvarpsins þess efnis að lögin komi til framkvæmda 1. nóvember 2020. Þar sem gert er ráð fyrir því að lögin öðlist gildi 1. júlí 2020 verði greiðslur afturvirkar frá þeim degi og til þess dags þegar lögin koma til framkvæmda.

Með hliðsjón af framangreindu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég hef reifað hér að framan.

Undir þetta rita hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir, með fyrirvara, Halla Signý Kristjánsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Anna Kolbrún Árnadóttir, með fyrirvara, Bryndís Haraldsdóttir, Guðmundur Ingi Kristinsson, með fyrirvara, Halldóra Mogensen, með fyrirvara, Orri Páll Jóhannsson og Ólafur Þór Gunnarsson.