150. löggjafarþing — 128. fundur,  26. júní 2020.

félagslegur viðbótarstuðningur við aldraða.

666. mál
[18:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég skal ekki taka langan tíma hér enda er hann naumt skammtaður núna í þinglokunum. Ég kem hingað fyrst og fremst til að fagna því sérstaklega að þetta mál sé nú vonandi að fá hér afgreiðslu. Ég hef haft þennan hóp svolítið í huga og til skoðunar alveg frá því að ég sat í velferðarnefnd fyrir allmörgum árum síðan og fór fyrst að gefa gaum að þessu gati sem væri í okkar öryggisneti þar sem væru lífskjör þess hóps sem hefur skert réttindi í almannatryggingakerfinu vegna búsetu um skamma stund í landinu. Ég þekki dæmi um fólk sem er í mjög bágri stöðu af þeim ástæðum, fólk sem hefur komið hingað til að vinna, jafnvel á miðjum aldri eða seinna, frá heimalandi með nánast engin réttindi og er svo hér að komast á efri ár og hefur áunnið sér afar takmarkaðan rétt í okkar kerfi.

Hér er afrakstur starfshóps sem var settur í það eftir að skoðað hafði verið í samræmi við stjórnarsáttmálann hvað væri hægt að gera til að bæta sérstaklega stöðu þeirra sem allra lakast stæðu í kerfinu og það er nákvæmlega þessi hópur. Og ef við ekki gripum til einhverra ráðstafana af þessu tagi þá værum við að dæma til hreinnar fátæktar, langt undir því sem nokkur annar hópur í samfélaginu myndi búa við, hluta þessa hóps og hann fer stækkandi á komandi árum. Þegar menn horfa til samspils almannatrygginga og lífeyrissjóða og lífeyrisréttinda, þá gekk gamla hugsunin í gamla einsleita samfélaginu út á það að menn myndu annars vegar vera með full réttindi í almannatryggingakerfinu að því marki sem vantaði upp á lífeyrisréttindi þeirra, en síðan tækju lífeyrissjóðirnir smátt og smátt við og bæru meiri og stærri hluta þess að tryggja mönnum framfærslu á efri árum.

Menn horfðu fram hjá því að samfélagið hefur síðan tekið stórstígum breytingum og það var alveg eðlilegt. Menn sáu það ekki fyrir hversu fjölþjóðlegt Ísland er orðið og hversu margir hafa flutt hingað á síðustu árum og/eða Íslendingar verið búsettir erlendis hluta ævi sinnar. Það hefur síðan leitt til þess að menn hafa nálgast málið hér með tilteknum hætti sem ég vil segja, öfugt við síðasta ræðumann, að ég er prýðilega sáttur við. Ég tel að hér sé vel unnið úr þessu máli. Ég er algerlega sáttur við að mönnum séu ekki tryggð 100% réttindi og það er fullkomlega eðlilegt að frá dragist réttur sem menn eiga vonandi í allmiklum mæli annars staðar, þ.e. hafi menn myndað réttindi í lífeyris- eða eftirlaunakerfum annarra landa, þá er fullkomlega eðlilegt að það dragist frá. Nema hvað? Auðvitað. Það er nákvæmlega það sem hér er á byggt. (Gripið fram í.) Jú, jú, ekki sé ég betur. (Gripið fram í: … 90%.) Já, 90%.

En það er nú mjög nálægt því að menn séu þá teknir inn með sama hætti. Og auðvitað er það þannig að þá er Ísland að taka á sig heilmikið umfram það sem því ber, t.d. skyldur í alþjóðlegu samhengi, í tvísköttunarsamskiptum og öðru slíku. Það er bara ósköp einfaldlega vegna þess að við viljum ekki hafa fólk hér sem í stórum stíl er á miklu lakari kjörum. Ef við gengjum alla leið væri miklu einfaldara að afnema öll ákvæðin um búsetuhlutfallið, eða ég sé ekki betur, og það væri náttúrlega algjör grundvallarbreyting. Þannig að sem fyrsti áfangi í því að taka á kjörum þessa fólks þá er ég ágætlega sáttur við þetta og ég tel að menn eigi að fagna því.

Auðvitað geta menn haft þá skoðun að ekkert sé nógu gott fyrr en það er fullkomið, eða 100%, en ég er ekki endilega þar. Ég er ekki maður sem grætur það að í okkar kerfi séu að einhverju marki tekjutengingar sem auðveldi okkur, á meðan við eigum þá ekki bara endalaust af peningum, að gera sem best við þá sem lakast eru settir. Ég hef satt best að segja, og ég hef sagt það áður, vaxandi áhyggjur af því hvernig menn tala orðið um þá hluti. Það er skiljanlegt að menn reyni að leita leiða til þess að bæta sérstaklega stöðu þeirra sem lakast eru settir. Ég ætla a.m.k. að fá að vera þar það sem ég á eftir í stjórnmálum, að vera sérstakur liðsmaður þess þegar tekið er á kjörum þeirra sem allra lakast standa. Þetta er óumdeilanlega framfaramál af þessu tagi. Það er að komast núna til framkvæmda í tíð þessarar ríkisstjórnar og ég er stoltur af því að vera liðsmaður hennar.