150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir.

662. mál
[10:32]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Til er rammi um það hvernig eigi að forgangsraða vegaframkvæmdum og sá rammi heitir samgönguáætlun. Um það gilda lög og hægt er að laga þau lög ef þau endurspegla ekki þessar sex framkvæmdir. Af þeim eru þrjár í kjördæmi hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hvers vegna á að fara í akkúrat þessar sex framkvæmdir? Það er bara pólitísk ákvörðun sem ráðherra leggur til hér í þinginu og fær þingið til að samþykkja af því að hann er ráðherra yfir málaflokknum og kemst upp með það í skjóli meirihlutasamstarfs síns. Hvers vegna á að fara í þessar sex framkvæmdir frekar en aðrar? Það eru lög í landinu um það hvernig skuli forgangsraða. Ráðherra er bara að fá sitt fram með því að taka þessar sex framkvæmdir út úr samgönguáætlun og jú, þetta mun kosta meira á endanum. Ráðherra getur kannski sagt: Á endanum mun fólk borga minna af því að það fer ekki umræddar leiðir. En eins og ráðherra segir eru sumar þeirra í samgönguáætlun. Það hefði verið hægt að fara þá leið í staðinn fyrir að rukka fólk fyrir að fara þessar leiðir. Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir að það muni kosta 33% meira fyrir fólkið. Hefði þetta bara verið áfram í samgönguáætlun, og þá fjármagnað með almannafé eins og aðrar samgöngur, hefði það verið miklu ódýrara fyrir landsmenn. (Forseti hringir.) Svo vil ég segja annað: Verða þetta önnur Vaðlaheiðargöng? Við vitum ekkert hvort áfram verði þannig farið með fjármagnið að (Forseti hringir.) Alþingi þurfi aftur að moka peningum inn í verkið eins og í Vaðlaheiðargöng. (Forseti hringir.) Kannski verða þetta ekkert Hvalfjarðargöng, kannski verða þetta Vaðlaheiðargöng.