150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

lyfjalög.

390. mál
[10:49]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Þetta er tillaga frá okkur í Viðreisn um að taka skref í átt að auknu frelsi, frelsi sem undirstrikar traust til neytenda og tryggir samkeppni og viðskiptafrelsi í landinu. Við færum okkur með tillögunni á sama stig og ríkisstjórnir á öðrum Norðurlöndum sem treysta neytendum á þessu sviði. Mér sýnist íslensk stjórnvöld ekki vilja taka sama skref og búa til sama umhverfi og er annars staðar á Norðurlöndum. Mér finnst það miður, en þetta er skref í átt að auknu frelsi þar sem við getum aukið aðgengi og bætt þjónustu fyrir neytendur á þessu sviði. Þess vegna segi ég já og vonast til að einhver frelsismál á þessu kjörtímabili verði nú samþykkt. Þessir stjórnarflokkar, Vinstri græn, Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, hafa fengið margar tillögur til að auka frelsi í landinu en þeim er alltaf umsvifalaust hafnað.