150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

446. mál
[10:58]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni munum sitja hjá í þessu máli. Svo ótrúlega vill til að frumvarp til breytinga á ýmsum lögum vegna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga var ekki unnið í samráði við Persónuvernd. Það er eiginlega alveg með ólíkindum að bjóða Alþingi Íslendinga upp á það að ráðherra komi með slíkt frumvarp hingað inn og fari þannig gegn lögum um persónuvernd, því að ef einhvers staðar eru mikilvægar persónuupplýsingar á ferðinni þá er það í heilbrigðiskerfinu. Hér er verið að breyta ýmsum lögum en gleymdist að tala við þá stofnun sem á að hafa eftirlit og veit hvað mest um persónuvernd. Við munum því ekki geta greitt þessu frumvarpi atkvæði.