150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

atvinnuleysistryggingar.

812. mál
[11:20]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þetta er enn eitt málið sem kemur til okkar þar sem ekki er gert mat á áhrifum á persónuvernd, sem er frekar slæmt því að þarna á Vinnumálastofnun að hafa aðgang að upplýsingum frá lögreglunni. Það er mikilvægt að gera mat á áhrifum á persónuvernd og tilgreina sérstaklega hvaða upplýsingum stofnunin á að hafa aðgang að. Það var ekki gert fyrir fram eins og á að gera samkvæmt lögum þannig að heimildin verður allt of opin og ég geri athugasemdir við það. Við sitjum því hjá.

Einnig er ekki tekið á mikilvægustu atriðunum, að hækka grunnfjárhæð atvinnuleysisbóta og skoða hvort við eigum ekki að afnema þessi skilyrði alveg af því að það yrði hiklaust mun skilvirkari framkvæmd ef við hefðum ekki eftirlit með öllum sem eru á atvinnuleysisbótum.