150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum er varða eignarráð og nýtingu fasteigna .

715. mál
[13:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætlaði nú ekki að koma upp en maður kveikir á perunni þegar maður veltir því fyrir sér að þessi ágæti breski auðmaður kemur hingað inn vegna EES-samningsins okkar og við vorum ekki búin að girða fyrir eitt eða neitt. Eins og ég skil hv. þingmann þá er verið að reyna, ég veit það ekki, að setja ákveðið þak á það hvað viðkomandi auðmaður eða hver sem er má eiga mikið af landi. Það er mikilvægt og ég vil sannarlega taka undir það með hv. þingmanni, ég skil ekki alveg af hverju við komum ekki með löggjöf sem gerir það að verkum að Íslendingar eigi allar þær auðlindir sem á þessum jörðum eru þannig að við þurfum ekki sí og æ að horfa upp á það að fólk sé hreinlega að safna að sér jörðum, hvort sem það eru jarðir með laxveiðiréttindi eða jarðir sem hafa hugsanlega vatnsréttindi. Við höfum í rauninni flotið sofandi að feigðarósi hvað varðar það að halda verndarhendi yfir eigin auðlindum. Þannig að þetta frumvarp er sannarlega skref í rétta átt. En mér finnst vanta þó nokkuð mikið inn í það.

Ég átta mig heldur ekki á því hvort t.d. ágætur breskur auðmaður getur haldið áfram að safna jörðum þrátt fyrir að Bretar hafi gengið úr Evrópusambandinu. Ég veit eiginlega ekki hver tilgangurinn er með þeirri heimild sem hæstv. forsætisráðherra er að sækjast eftir núna, að geta jafnvel rýmkað frekar sölu jarða til aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég skil það vel með einstaklinga sem eru giftir hér heima og annað slíkt og ætla jafnvel að eiga heima hér, auðvitað eiga þeir að hafa fullan rétt á því eins og hver annar að koma sér upp jörð, hvað svo sem um það má segja. En ég er enn þá mikið að spá í hvort það séu engin takmörk fyrir því hvað t.d. breskir auðmenn geta keypt mikið af Íslandi nú eftir að þeir eru gengnir úr Evrópusambandinu.