150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

sjúkratryggingar.

701. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg):

Frú forseti. Ég flyt hér nefndarálit með breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar frá meiri hluta velferðarnefndar. Ég ætla ekki að fara í nefndarálitið í smáatriðum. Ég vísa til þess sem stendur í álitinu hvað varðar gesti og umsagnir en með því eru lagðar til breytingar á lögum um sjúkratryggingar þess efnis að felld verði brott skylda ráðherra til að fá tillögur stjórnar sjúkratryggingastofnunar áður en hann skipar forstjóra, að tryggja betur heimildir stofnunarinnar til eftirlits með starfsemi þjónustuveitenda og gefur stofnuninni ríkari heimildir til að fá aðgang að sjúkraskrám til að hún geti sinnt eftirlitshlutverki sínu.

Í stuttu máli sagt þá komu fram athugasemdir við nokkur þessara atriða og það er reifað í nefndarálitinu í fyrsta lagi með skipun forstjóra. Meiri hlutinn kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki óeðlilegt að ráðherra geti óskað umsagnar stjórnarinnar um ráðningu forstjóra en eðli málsins samkvæmt er forstjóri í ráðningarsambandi við ráðherra og því kannski ekki eðlilegt að hafa lagaáskilnað um þetta. Hvað varðar eftirlit með þjónustuveitendum þá var reifað á fundum nefndarinnar að það kynni að vera skynsamlegt að geta haft á hvorn háttinn sem væri, það er að sækja gögn rafrænt og/eða að fara af stað til að fara í eftirlit og meiri hlutinn tekur undir það og gerir breytingar þar að lútandi.

Það varð nokkur umræða um persónuvernd og miðlun persónuupplýsinga, eins og kemur fram í álitinu, og eftir allnokkrar vangaveltur og skoðanaskipti verður úr að meiri hlutinn gerir breytingartillögu sem hljóðar svo:

„Sjúkratryggingastofnuninni er heimil vinnsla persónuupplýsinga, þar á meðal viðkvæmra persónuupplýsinga um heilsufar, lyfjanotkun og heilbrigðisþjónustu einstaklinga, til að sinna lögbundnum skyldum sínum, þar á meðal eftirliti samkvæmt lögum þessum og að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Við þá vinnslu skal einnig gætt að ákvæðum laga um réttindi sjúklinga eftir því sem við á. Miðlun slíkra gagna fer í gegnum örugga vefgátt sjúkratryggingastofnunarinnar sem er með aðgangsstýringum, rekjanleika og dulkóðun.

Stofnuninni er heimilt að starfrækja gagnagrunna og miðla upplýsingum úr þeim svo sem nánar er kveðið á um í lögum þessum og að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.“

Ég tel, frú forseti, ekki þörf á að reifa álitið frekar. Það talar fyrir sig sjálft. Ég vil að lokum þakka hv. velferðarnefnd fyrir samstarfið við vinnslu þessa máls en undir álit meiri hlutans skrifar undirritaður og Birgir Ármannsson, Brynjar Níelsson, Halla Signý Kristjánsdóttir og Lilja Rafney Magnúsdóttir, hv. þingmenn.