150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir .

944. mál
[21:58]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Ég verð nú að taka þennan tíma, hv. þingmaður, til að spyrja um þetta því að þetta skiptir miklu máli. Þarna eru 4,5 milljarðar undir. Ef kreditkortafyrirtækin bera ábyrgð á hluta af þessu og fólk á að geta krafið þau um endurgreiðslu á sínum ferðum í gegnum kortin sín þá finnst mér það ábyrgðarhluti af ríkissjóði að fara að taka þessa ábyrgð á sig. Það er þetta sem ég er að leita að svörum við. Ég get alls ekki samþykkt þetta frumvarp ef það er meiningin, ef ég skil þetta rétt, sem ég er kannski alls ekki búinn að kynna mér. Þetta er gallinn við að taka mál svona hratt í gegn að eitthvað slíkt geti farið fram hjá manni. Ég er bara að spyrja um þetta: Hver er ábyrgð kreditkortafyrirtækjanna? Er ríkið að taka á sig ábyrgð þessara fyrirtækja, eða ekki? Hvernig er samspilið þarna á milli? Mér finnst þetta varhugavert, mér finnst það. Ég vil fá svör við þessu. Ég get ekki, fyrr en ég er búinn að fá áreiðanleg svör, samþykkt svona ábyrgð ríkisins á þessum stórfyrirtækjum sem kreditkortafyrirtækin eru, sem eru tryggð í bak og fyrir yfirleitt. Ég er á móti því að ríkissjóður taki á sig þessa ábyrgð, algjörlega.