150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

714. mál
[22:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Í ljósi aðstæðna ætla ég að reyna að hafa þetta mjög stutt. Það er eitt og annað sem hægt er að taka undir en líka er hægt að lýsa yfir ákveðinni óánægju yfir því m.a. að meiri hluti nefndarinnar breytti frumvarpi ráðherrans í þá veru að það frumvarp lítur núna út og niðurstaða meiri hlutans er núna fjær dýravernd heldur en nær. Finnst mér það miður og verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum hvað það varðar, í tengslum við velferð dýra. Það eru mjög skringilegar athugasemdir og breytingar sem meiri hluti nefndarinnar undir forystu Vinstri grænna setur fram hér.

Ég vil síðan einnig draga fram að ég er með breytingartillögu varðandi verðlagsnefnd landbúnaðarins þar sem er verið að breyta skipunartíma nefndarinnar úr fjórum í tvö ár. Það er gott og blessað. Það er svo sem ágætisbreyting ef menn vilja lifa með verðlagsnefnd búvara en að mínu mati, og okkar í Viðreisn, er verðlagsnefnd búvara algjör tímaskekkja og í hrópandi ósamræmi við nútímakröfur, hvort sem það eru kröfur um eðlilega, gegnsæja samkeppni eða frelsi á sviði matvæla eins og við viljum hafa það annars staðar.

Að því sögðu er hægt að taka undir eitt og annað í þessu máli en þetta eru það stór atriði að mínu mati að engan veginn er hægt að styðja málið.