150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

sjúkratryggingar.

8. mál
[22:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég vildi einfaldlega koma hingað upp til að fagna því að útlit er fyrir að þetta mál fái framgöngu á þessu þingi. Það er gríðarlega mikilvægt mál að sálfræðiþjónusta komist undir sjúkratryggingar. Það er búið að berjast fyrir þessu réttlætismáli lengi. Ég tel að það verði skref í jafnréttisátt, eins og fram hefur komið í umræðunni, að andlegir sjúkdómar verði metnir til jafns við líkamlega sjúkdóma og njóti stuðnings hins opinbera kerfis. Ég held líka að þetta sé gríðarlega mikið jafnréttismál í þeim skilningi að tekjulægri hópar munu nú hafa aðgengi að þjónustu sem alla jafna hefur ekki verið í boði fyrir þá. Þeir fá kannski einn tíma ef þeir verða fyrir alvarlegu áfalli en við vitum auðvitað að talsvert meira þarf til.

Ég þakka Viðreisn fyrir frumkvæðið að því að leggja málið fram og vinna svona ötullega að því. Sömuleiðis vil ég þakka hv. velferðarnefnd fyrir að vinna málið vel áfram og fyrir að sameinast um að mæla með því að málið verði samþykkt. Það er stórt skref og mikilvægt. Ég tel að það verði farsælt og okkur til mikilla heilla, heilbrigði þjóðarinnar til heilla. Sömuleiðis vil ég benda á að þetta er mikilvægt skref í að efla skyldu okkar til að veita öllum borgurum okkar réttinn til bestu mögulegu heilsu. Aðgengi að sálfræðiþjónustu á viðráðanlegu verði er hluti af þeim rétti okkar að njóta bestu mögulegu heilsu. Ég tel að þetta sé gríðarlega stórt skref í þá átt að við vinnum okkur upp úr þeirri afturför sem hefur verið í því hvernig ríkið á Íslandi sinnir rétti okkar til bestu mögulegu heilsu. Við höfum ekki staðið okkur nógu vel í að bæta heilbrigðisþjónustu undanfarin ár. Við höfum ekki haft góða réttlætingu fyrir því að vera ekki að bæta í heilbrigðisþjónustuna. Þetta er a.m.k. skref í átt að því að bæta heilbrigðisþjónustu á Íslandi og því ber að fagna. Þetta er mikil réttarbót og ég þakka fyrir hana.