150. löggjafarþing — 130. fundur,  30. júní 2020.

almannatryggingar.

135. mál
[02:03]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er afar þakklát fyrir að við skulum vera komin með þetta mál hér fyrir þingheim. Ég mælti fyrir þessu frumvarpi 10. október í fyrra. Hér erum við í raun aðeins að biðja um að setja punktinn yfir i-ið hvað lýtur að gildandi rétti. Það eru gildandi lög í landinu, 69. gr. almannatryggingalaganna er fullgild. Það fer ekkert á milli mála hvað hún er að segja. Fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og hæstv. forsætisráðherra þáverandi, Davíð Oddsson, kom árið 1997 inn með þessa grein þar sem hann ítrekaði að það færi ekkert á milli mála að það yrði alltaf almannatryggingaþeginn sem fengi að njóta vafans, hvort heldur sem væri í því að launavísitalan væri hærri það árið eða almenn launaþróun í landinu versus neysluvísitalan. Það fer ekkert á milli mála að hér hefur raun verið farið algjörlega á svig við meginmarkmið reglunnar, það hefur verið farið á svig við hana síðustu árin. Bara frá því árið 2010 hefur kjaragliðnun vegna misbeitingar á þessari grein (Forseti hringir.) verið 29% hjá okkar langfátækasta þjóðfélagshópi. Þess vegna skora ég á ykkur öll að standa nú með okkur og sýna það í verki að við virðum gildandi rétt. Við erum jú löggjafinn.