150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[11:32]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Það er svo merkilegt með fordæmalausu tímana að þá verða til fordæmin. Stundum búum við að þeim eins og sést á því að flest þau úrræði sem best hafa reynst í viðbrögðum við efnahagsástandinu vegna kórónuveirunnar eru úrræði sem urðu til í tíð vinstri stjórnarinnar sem viðbrögð við efnahagsáfalli þess tíma. Hérna má sérstaklega nefna hlutabótaleiðina sem er væntanlega það úrræði sem allra best hefur reynst, jafnvel þó að holað hafi verið innan úr því núna í vor samhliða því að teknir voru upp uppsagnarstyrkir. Þess vegna hljótum við að fagna því að nú um mánaðamótin eigi að framlengja hana, þótt ekki sé nema um tvo mánuði.

En þetta lá ekki fyrir fyrr en í gær og núna eru mánaðamótin þegar þessi leið átti að renna út. Ég velti fyrir mér hversu mörg fyrirtæki hafi verið tvístígandi í byrjun vikunnar um það hvort föstudagurinn væri uppsagnadagur hjá þeim og hversu margir einstaklingar á hlutabótum hafi ekki vitað hvort þeir yrðu í vinnu eftir helgina. Þegar við tölum um samráðsleysi við stjórnarandstöðuna þá virkar það stundum abstrakt úti í samfélaginu en svona birtist það í lífi fólks.

Ég veit ekki hvernig stendur á því að svona lengi þurfti að bíða með að tilkynna framlengingu hlutabótaleiðarinnar. Mér detta í hug tvær mögulegar ástæður sem mér þykir báðar slæmar og vona að hvorug sé raunin. Annars vegar gæti ástæðan verið sú að illa hafi gengið að semja á milli stjórnarflokkanna um að halda áfram með úrræðið. Það er ekki gott fyrir þann vetur sem fram undan er, þar sem við þurfum að vera öll saman í að byggja hér upp. Hin ástæðan gæti verið að einhver kúltúr leyndarhyggju sé orðinn rótgróinn í Stjórnarráðinu, að spilunum sé haldið svo þétt upp að fólki að ekki megi sýna á þau fyrr en á allra síðustu metrunum. Það er ekki heldur gott vegna þess að við þurfum að fara að sjá fram á veginn. Almenningur þarf að fara að sjá inn í haustið og veturinn og næsta ár.

Þær aðstæður sem við lifum við núna eru bara generalprufa fyrir þær miklu samfélagsbreytingar sem fram undan eru vegna tækni- og loftslagsbreytinga. Þá skiptir öllu máli að við séum í alvöru öll saman í þessu. Í haust þurfum við að snúa vörn í sókn. Við erum ekki farin að sjá þau mál koma frá ríkisstjórninni enn þá. Nám er vinnandi vegur er verkefni sem er í þá áttina. Það hjálpar fólki að afla sér nýrrar þekkingar sem getur gagnast því í frekari störfum í framhaldinu. En það sem vantar núna er að búa til verkefni sem henta þeim hópi sem er atvinnulaus í dag. (Forseti hringir.) Við sáum það ekki í vor þegar Allir vinna verkefnið var tekið af hillunni og endurnýjað. Það var uppskrift sem átti ekki við í dag. (Forseti hringir.) Við þurfum að vinna eftir stöðunni eins og hún birtist og við þurfum að sjá (Forseti hringir.) hvað á að gera með meiri fyrirvara en fjórum dögum fyrir mánaðamótin þar sem allt fer í kaldakol. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)