150. löggjafarþing — 132. fundur,  27. ág. 2020.

staða mála vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel þó rétt að árétta það sem kom fram í upphafi hennar: Ríkisstjórnin hefur einmitt haft mjög skýr leiðarljós til að takast á við þennan faraldur. Þau leiðarljós fór ég yfir í fyrri ræðu minni, þ.e. að vernda líf og heilsu fólks. Það höfum við gert með afgerandi sóttvarnaráðstöfunum sem hafa tekið mið af aðstæðum á hverjum tíma. Ég hef ekki heyrt mikil andmæli við þeim ráðstöfunum í þessum sal. Hins vegar hefur leiðarljósið verið að lágmarka efnahagslegan og samfélagslegan skaða og ég ætla að taka undir með hæstv. félags- og barnamálaráðherra sem fór ágætlega yfir þær margháttuðu félagslegu aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til og hafa greinilega farið fram hjá einhverjum hv. þingmönnum stjórnarandstöðunnar sem hafa ekki fylgst með.

Hér hefur svo sannarlega verið gripið til raunverulegra aðgerða sem snúast um það að verja afkomu fólks, til að mynda með hlutastarfaleiðinni, sem snúast um það að búa til ný tækifæri með margháttuðum menntaúrræðum fyrir atvinnuleitendur, sem snúast um það að styðja við tekjulágar fjölskyldur þannig að börn geti áfram stundað frístundastarf, sem snúast um viðbótarstuðning við þá aldraða sem standa höllustum fæti og svo mætti lengi telja.

Hér var líka farið yfir af hv. stjórnarþingmönnum þá gríðarlegu aukningu sem orðið hefur í opinberri fjárfestingu frá því að þessi ríkisstjórn tók við, á árunum 2017–2020, og nú til viðbótar á þessu ári til að skapa fleiri störf. Ekki fjöldaframleidd láglaunastörf eins og hv. þingmenn töluðu hér um og fóru þar með algjörlega rangt mál. Því hvað erum við að gera? Við erum að fjárfesta í grunnrannsóknum, nýsköpun, þekkingariðnaði, skapandi greinum, grænum lausnum, stafrænum lausnum, samgöngumannvirkjum, byggingarframkvæmdum. Fjölbreyttum lausnum fyrir framtíðarsamfélag.

Ríkisstjórnin hefur nefnilega sýnt það í verki — og hún er kannski meira fyrir að sýna hlutina í verki en að tala mikið — að hún treystir sér til að bregðast við síbreytilegum aðstæðum, (Forseti hringir.) forgangsraðar almannahag og hefur skýr leiðarljós sem hún treystir sér til að fylgja.