150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

markmið í baráttunni við Covid.

[13:36]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég var nú ekki að biðja um sögulegt yfirlit heldur einhverjar upplýsingar um hvert stjórnvöld stefna núna miðað við það ástand sem hér er. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra segir um að það séu kenningar um að veiran hafi önnur einkenni nú en áður. En á sama tíma segir hæstv. ráðherra að við séum búin að læra svo mikið af reynslunni. Allt er þetta einhvern veginn þvers og kruss eins og stefna ríkisstjórnarinnar í viðureigninni við þetta ástand.

Því ítreka ég fyrri spurningu: Geta stjórnvöld ekki veitt almenningi meiri upplýsingar um hvert er stefnt og að ef ákveðnum áföngum er náð gerist tilteknir hlutir? Því ef ætlunin er að loka landinu alveg þar til t.d. bóluefni finnst, og það má færa rök fyrir því líka, munu fyrirtæki og almenningur gera aðrar ráðstafanir en ef ætlunin er einhver önnur. Er ekki tímabært, eftir þessa sex mánaða reynslu, að stjórnvöld veiti meiri upplýsingar um hvert sé stefnt og hvers megi vænta við tilteknar aðstæður?