150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

hækkun atvinnuleysisbóta.

[13:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég og hæstv. forsætisráðherra deilum örugglega þeirri sýn að veirufaraldurinn er engum hér að kenna. Formaður Samfylkingarinnar og formaður Vinstri grænna hljóta að vera sammála um það að eitt af brýnustu verkefnum okkar nú er að koma í veg fyrir neyð fólks og að ójöfnuður aukist í kreppunni. Það blasir hins vegar því miður við að tugir þúsunda manna munu missa vinnuna og heimili verða fyrir gríðarlegu tekjufalli, ráðstöfunartekjur munu jafnvel helmingast. Það þýðir að fleiri einstaklingar geta ekki borgað af lánum, ekki borgað leigu, ekki sent börnin sín í tómstundir og þurfa jafnvel að neita sér um að sækja nauðsynlega læknisþjónustu.

Það er vissulega gott að það standi til að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta um þrjá mánuði en það stendur ekki til að hreyfa við grunnatvinnuleysisbótunum þrátt fyrir að þúsundir séu nú þegar á þeim. Formaður Sjálfstæðisflokksins hefur haldið því fram að slík hækkun hafi letjandi áhrif á atvinnuleitendur. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hún sammála þeirri fullyrðingu?