150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

ríkisábyrgð á láni til Icelandair.

[13:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Forseti. Í upphafi þeirra efnahagsþrenginga sem nú blasa við virtist ríkisstjórnin ekki æst í að koma Icelandair til hjálpar og má þar m.a. vísa í orð hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur í viðtali á Bylgjunni í maí þar sem hún sagði, með leyfi forseta:

„[Icelandair] hefur ákveðið að fara í það verkefni að safna nýju hlutafé og við höfum sagt að við styðjum þá vegferð. Ef hún gengur upp er ríkið reiðubúið að koma með lánalínu eða einhvers konar ríkisábyrgð.“

Af þessu mátti ráða, a.m.k. í maí, að ráðherrann setti það skilyrði fyrir ríkisábyrgð að félaginu hefði tekist það ætlunarverk sitt að auka hlutafé sitt. En nú er staðan önnur og lánalína er í boði án þess að hlutafjárútboð hafi einu sinni átt sér stað. Þá hlýt ég að spyrja: Hvað hefur breyst í afstöðu hæstv. ráðherra? Hvers vegna er núna ásættanlegt að veita ríkisábyrgð, þessa lánalínu, án þess að hlutafjárútboð hafi farið fram? Ég sé ekki að nokkuð hafi breyst í stöðu félagsins nema reyndar að það hefur notið ríkulegs ríkisstuðnings í formi uppsagnaleiðarinnar og hlutabótaleiðarinnar. Jú, reyndar hefur það breyst að félaginu tókst að semja um ríflega kjaraskerðingu flugfreyja og flugliða með mjög óvönduðum og jafnvel ólöglegum hætti. Ég tók ekki eftir neinum andmælum hæstv. ráðherra þegar Icelandair sagði upp öllum flugfreyjum sínum á einu bretti og hótaði að semja við annað stéttarfélag. Ég tók hins vegar eftir fagnaðarlátum hæstv. ráðherra þegar kúgunarverknaðurinn var innsiglaður með samningum við flugfreyjur. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Var það fullnaðarsigur Icelandair yfir kjarabaráttu flugfreyja sem breytti afstöðu hennar gagnvart ríkisábyrgð?