150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

ríkisábyrgð á láni til Icelandair.

[13:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Fyrir þinginu liggur frumvarp, sem er til umræðu hér á eftir, um ríkisábyrgð á lánalínu til Icelandair sem háð er ákveðnum skilyrðum. Þau skilyrði hafa verið alveg ljós frá því í vor og ekkert hefur breyst í því verkefni. Ríkið hefur allan tímann lagt áherslu á að félagið ráðist sjálft í fjárhagslega endurskipulagningu, að félagið ljúki sjálft kjarasamningum sínum, samningum við hluthafa, lánardrottna og ljúki við hlutafjárútboð eigi að koma til þess að af slíkri ríkisábyrgð á lánalínu verði. Frumvarpið sem hér liggur fyrir snýst fyrst og fremst um heimild til fjármála- og efnahagsráðherra til að veita slíka ábyrgð svo fremi sem þetta gangi eftir.

Þetta verkefni hefur frá upphafi byggt á ákveðnum leiðarljósum um að mikilvægt sé að hér á landi sé íslenskt flugfélag, með höfuðstöðvar á Íslandi, sem sé starfandi á íslenskum vinnumarkaði; að hér sé starfandi flugfélag sem geti orðið mikilvægur aðili í efnahagslegri viðspyrnu, ekki síst ferðaþjónustunnar, á Íslandi. Þessi leiðarljós hafa legið fyrir frá upphafi og það frumvarp sem liggur fyrir þinginu er mjög eðlilegt framhald af þeirri yfirlýsingu sem gefin var í vor. Ef hv. þingmaður skilur frumvarpið einhvern veginn öðruvísi þá átta ég mig ekki á því.

Hv. þingmaður vísar til kjarasamninga flugfreyja. Já, ég er þeirrar skoðunar að slíkar deilur eigi að leysa við samningaborðið. Mér fannst það mjög jákvætt að þessi deila leystist við samningaborðið. Ef hv. þingmaður er ósammála því er það hennar mál. En já, mér finnst eðlilegt að vinnudeilur leysist við samningaborðið og að báðir aðilar eigi að leggja sitt af mörkum til að svo verði.