150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

varúðarreglur vegna Covid.

[14:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég nefndi það hér áðan að það er hluti af viðfangsefninu að við erum stöðugt að tileinka okkur nýja þekkingu vegna reynslunnar. Í upphafi var til að mynda ekki mælt með grímunotkun en nú hafa hafa þau fyrirmæli breyst vegna reynslunnar, m.a. annars staðar í heiminum, þannig að hér er verið að leggja til grímuskyldu við tilteknar aðstæður. Hv. þingmaður kom að því að ekki væru allir að virða þær reglur og það er vandamál. Ég heimsótti Landspítalann í Fossvogi um daginn og þar var gríðarlega strangt eftirlit með því að allir virtu grímuskylduna sem inn komu. Sömuleiðis hefur mjög strangt eftirlit verið í innanlandsflugi, veit ég, þannig að við erum kannski að einhverju leyti að tileinka okkur þær nýju skyldur sem á okkur eru lagðar.

Hv. þingmaður spyr einnig hvort allir séu jafnir. Það er auðvitað svo að það hefur ekki verið þannig. Hvað viljum við segja við íbúa á hjúkrunarheimilum þessa lands? Hafa þeir notið fullra réttinda í gegnum þennan faraldur? Ég held ekki. Hvað með fólkið sem missti ættingja, sérstaklega í fyrstu bylgju faraldursins, og fékk ekki að sitja með þeim síðustu stundirnar? Fékk það fólk að njóta fullra réttinda? Fjöldi fólks hefur ekki fengið að njóta réttinda til að reka sinn atvinnurekstur. Hv. þingmaður nefnir sjúkraþjálfara og við getum talað um nuddara, hárgreiðslufólk o.s.frv. Staðreyndin er sú að fjöldi fólks hefur ekki notið sinna fullu réttinda í gegnum þennan faraldur. Þar höfum við að sjálfsögðu reynt að gæta meðalhófs og ganga ekki lengra en þörf krefur og tryggja þannig að fólk sé sátt við þær aðgerðir sem ráðist er í. Þetta er ávallt vandmeðfarin spurning en það er það mat sem stendur stöðugt yfir (Forseti hringir.)af hálfu yfirvalda, hvernig við tryggjum að ekki sé gengið lengra en þörf er.