150. löggjafarþing — 133. fundur,  28. ág. 2020.

fjáraukalög 2020.

969. mál
[16:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að það er ekki bara forsætisráðherra sem finnst óþægilegt að tala um kúvendingu, það hefur smitast í þingflokk Vinstri grænna. Já, það er að mínu mati kúvending fyrst opnað var í sumar. Við spurðum um sviðsmyndir. Við spurðum um plan og fengum engin svör, ekki við opnun í sumar. Ef þingmaðurinn hefur ekki tekið eftir því þá tók ríkisstjórnin sem hv. þingmaður styður pólitíska ákvörðun um að hafa ekkert samráð. Þá hljótum við að spyrja spurninga. Erum við með gögnin sem hv. þingmaður og ríkisstjórnin er með? Nei. Höfum við haft tækifæri til að búa til og byggja upp sviðsmyndir? Nei. Ég hefði hins vegar talið það farsælla til þess að auka einmitt samstöðuna og ég ítreka það: Samstaðan er dýrmætt hreyfiafl til að ýta samfélaginu aftur af stað, til að búa til einhver verðmæti, til að halda áfram. En ríkisstjórnin ákvað að fara aðra leið. Ég ætla ekki að meta það hér og nú hver leiðin ætti að vera. Ég hefði viljað fá útskýringar. Af hverju var þessi kúvending tekin? Þetta kemur ekki endilega frá mér. Eigum við að tala við forystufólk í fyrirtækjum? Eigum við að tala við þingmenn innan stjórnarflokksins, lesist: Sjálfstæðisflokksins? Eigum við að tala um ráðherra í ríkisstjórn sem dregur það eiginlega fram með minnisblaði sínu ef það á að stafa það ofan í okkur sem erum að reyna að lesa í það? Undirbúningur við ákvörðunina var ónógur. Það vantaði greiningar, punktur. Þannig er það.